Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Niðurstöður samkeppni um hönnun byggingar yfir menningararfinn

Í dag, fimmtudaginn 21. ágúst, voru kynntar niðurstöður samkeppni um hönnun húss fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Alls bárust 19 tillögur.

Í dag, fimmtudaginn 21. ágúst, voru kynntar niðurstöður samkeppni um hönnun húss fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Alls bárust 19 tillögur.

Fyrstu verðlaun hlutu Hornsteinar arkitektar ehf. Önnur verðlaun hlutu PK arkitektar ehf., arkitektar Pálmar Kristmundsson og Fernando de Mendonca og þriðju verðlaun fengu VA arkitektar ehf., arkitektar Þórhallur Sigurðsson og Harpa Heimisdóttir. Auk þessara voru þrjár tillögur keyptar.

Formaður dómnefndar, Sigríður Anna Þórðardóttir, kynnti niðurstöðurnar og menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ og Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, ávörpuðu gesti.

Úr markmiðum keppninnar
Byggingin skal vera vönduð og fögur og njóta sín vel í umhverfinu. Húsið á að vera öruggur geymslustaður þjóðargersema um langa framtíð, handritanna sem geyma íslenskar fornbókmenntir, eddukvæði, sögur og fleira. Húsið á að mynda hagkvæma og örvandi umgjörð um þá fjölþættu starfsemi sem þar fer fram: kennslu, rannsóknir, fræðslu og þjónustu. Þar á að vera góð sýningaraðstaða þar sem vel er tekið á móti gestum, ótignum sem tignum, og gefin skýr hugmynd um efnið sem kynna á og þá virðingu sem það nýtur. Mikilvægt er að nýjasta tækni sé notuð til að tryggja öryggi og árangursríkt starf.
Úr umsögnum dómnefndar um tillögurnar

1. verðlaunVinningstillagan

„Tillagan er sérstæð og frumleg með sínu sjálfstæða og skýra sporöskjuformi sem er hóflega brotið upp með útskotum og inndregnum svæðum. Hún er falleg, fínleg, yfirveguð og myndar jafnframt sterkt kennileiti sem fellur vel að umhverfi. Byggingin stendur í grunnri spegiltjörn og er lokuð sem virki út á við en opin og einlæg inn á við. Að utan er hún klædd málmhjúp með stílfærðum afritum texta úr handritum sem í senn skreytir virkisveggina og vekur forvitni um það sem býr innan þeirra.
Gönguleið á milli Háskóla Íslands og Þjóðarbókhlöðu er felld inn í bygginguna. Aðlaðandi aðalaðkoma er um brú yfir litskrúðuga tjörn sem ásamt ljósasúlum með megingönguásnum umlykur húsið og styrkir tengsl við umhverfið.
Innra fyrirkomulag er almennt mjög vel leyst. Bókasalur opnast frá fyrstu til þriðju hæðar í tilkomumikla háa hvelfingu og tengist þannig vinnustofum fræðimanna en utan hans blasir við tjörnin og myndar hér eins konar vík inn í húsið. Almenningsrými eru einnig tengd forrými á 1. hæð og kaffiterían, sem er andspænis bókasal, mætir einnig vík úr tjörninni. Kaffistofa á 3. hæð tengist skjólgóðri verönd. Á 2. og 3. hæð eru kennslu- og vinnurými tengd lokuðum inni/úti-görðum. Skilgreindar rýmisþarfir eru vel leystar og gefa kost á margvíslegum sveigjanleika þrátt fyrir þétta skipan. Sýningarsal handrita og handritarannsóknum er haganlega komið fyrir á 1. hæð.“

2. verðlaunAnnað sæti

„Byggingin er I-laga með langhlið meðfram Suðurgötu og afstaða á lóð er skýr og einföld. Húsið skiptist í tvær samsíða álmur sem umlykja tjörn sem lækkar í stöllum niður með fyrirlestrasal. Húsið er látlaust og stílhreint en form þess um leið sterkt og agað. Það sómir sér vel á staðnum og fellur prýðilega að umhverfi. Þrátt fyrir stærð er yfirbragð fíngert. Öll framsetning er skýr og falleg.“

 

3. verðlaunÞriðja sæti

„Byggingin hefur nýstárlegt form með bogadregnum og grasi grónum þakformum sem minna á landslagsteppi. Yfirbragð hennar er frjálslegt og hún er glaðleg, björt og hugmyndarík. Langhlið meðfram Suðurgötu er mjög há en húsið lækkar til vesturs og er aðalinngangur fyrir miðju að vestan. Þakgarðar eru ætlaðir til útiveru en þakgarður tengdur kaffistofu vísar þó í norðvestur. Byggingin kallar á mikla athygli og gæti orðið áhugavert kennileiti í borginni.“

Frá árinu 1971 hafa íslensk handrit, sem skilað var frá Danmörku eftir langa vist þar í landi, verið varðveitt í Árnagarði af stofnun sem komið var á fót til að varðveita þau og rannsaka. Í sama húsi hefur farið fram kennsla og rannsóknir í íslenskum fræðum.

Árnagarður var reistur í nokkurri skyndingu af þjóð sem bjó við óstöðugan og heldur bágborinn efnahag en hugmyndin var að reisa síðar myndarlegri byggingu yfir þessar þjóðargersemar í tengslum við Þjóðarbókhlöðu eða í næsta nágrenni.

Árið 2006 voru fimm stofnanir á sviði íslenskra fræða sameinaðar í eina sem fékk nafnið Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en árið áður höfðu ríkisstjórn og Alþingi samþykkt að verja einum milljarði til að reisa hús á svæði Háskóla Íslands yfir þessa starfsemi.

Nefnd sem menntamálaráðherra skipaði árið 2007 vann þarfagreiningu og samkeppnislýsingu um hönnun húss fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ákveðið var að starfsemi íslenskuskorar Háskóla Íslands yrði einnig í húsinu sem risi á lóð A3 á háskólasvæðinu, norðan Guðbrandsgötu, vestan Suðurgötu. Menntamálaráðherra skipaði síðan dómnefnd í desember 2007 sem hafði það hlutverk að efna til opinnar samkeppni um hönnun húsnæðis Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslenskuskorar Háskóla Íslands, í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. 
 
Samkeppnislýsingin lá fyrir í mars 2008 og var samkeppnin auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu í byrjun þess mánaðar. Skilafrestur tillagna var 12. júní 2008. 
 
Nítján tillögur bárust og voru allar metnar. Innsendar tillögur voru mjög fjölbreyttar og augljóst að höfundar nálguðust viðfangsefnið af miklum metnaði og frumleika. Djarfar og skemmtilegar hugmyndir birtast í mörgum tillögum þó þær hafi ekki hlotið verðlaunasæti eða verið valdar til innkaupa. Á heildina litið telur dómnefnd að niðurstöður samkeppninnar gefi góða mynd af mögulegri uppbyggingu á lóðinni og aðlögun að nærliggjandi byggingum.

Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af menntamálaráðuneytinu voru:

  • Sigríður Anna Þórðardóttir, sendiherra, formaður dómnefndar,
  • Vésteinn Ólason, forstöðumaður og
  • Guðmundur R. Jónsson, prófessor.


Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands voru:

  • Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt FAÍ og
  • Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt FAÍ.

Ritari dómnefndar var Þráinn Sigurðsson sérfræðingur, menntamálaráðuneyti, trúnaðar- og umsjónarmaður samkeppninnar Gísli Þór Gíslason verkefnastjóri, Ríkiskaupum, en verkefnastjórn og ráðgjöf fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins önnuðust Ingólfur Aðalsteinsson verkefnastjóri og Bergljót S. Einarsdóttir arkitekt. Ráðgjafi frá stofnun Árna Magnússonar var Sigurgeir Steingrímsson rannsóknardósent og ráðgjafi frá íslenskuskor HÍ var Eiríkur Rögnvaldsson prófessor. Leitað var til VSÓ Ráðgjafar við stærðarreikninga og kostnaðarmat valdra tillagna. 
 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum