Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur leikskólans 6. febrúar 2009

Markmiðið með verkefninu er að beina sjónum að leikskólanum og því gróskumikla og mikilvæga starfi sem þar fer fram, hvetja til aukinnar umræðu um leikskólastarf og gera það sýnilegra.
Dagur leikskólans 6. febrúar
dagur_leikskolans-1

Dagur leikskólans – 6. febrúar er nú haldinn í annað sinn. Dagurinn er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, menntamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmiðið með verkefninu er að beina sjónum að leikskólanum og því gróskumikla og mikilvæga starfi sem þar fer fram, hvetja til aukinnar umræðu um leikskólastarf og gera það sýnilegra.

Menntamálaráðuneytið hvetur leikskóla, sveitarfélög og landsmenn alla til að huga að mikilvægi leikskólans og beinir því til leikskóla, starfsfólks þeirra, leikskólabarna og foreldra þeirra að gera sér dagamun, séu tök á, í tilefni dagsins, svo hann megi festa sig í sessi og verða að skemmtilegri hefð í starfi leikskóla.

Í tilefni dags leikskólans á síðasta ári gaf menntamálaráðuneytið út ritið „Dagur leikskólans“ í samvinnu við samstarfsaðila og má nálgast það á rafrænu formi á heimasíðu ráðuneytisins, http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/dagur_leikskolans.pdf Leikskólar um allt land tóku virkan þátt í verkefninu og héldu upp á daginn á fjölbreyttan hátt.  Sem dæmi má nefna var gefið út veggspjald um hvernig börn læra í leikskólum, foreldrum var víða boðið í heimsókn í leikskóla til að fylgjast með leik og námi barna sinna og haldnar voru listasýningar á verkum leikskólabarna.

Ísland er eitt fárra landa sem lagalega hefur skilgreint leikskólann sem fyrsta skólastigið og hefur svo verið um langt árabil. Síðastliðið vor samþykkti Alþingi ný lög um leikskóla. Lögin bera vott um þá hröðu þróun sem orðið hefur í málefnum leikskóla hér á landi á undanförnum árum. Stoðir leikskólans eru styrktar og enn frekar er viðurkennt að leikskólastigið er órjúfanlegur og mikilvægur hlekkur í samfellu náms hvers einstaklings.  Öll börn eiga jafnan rétt til leikskólagöngu og eiga leikskólar að taka mið af því að börn koma í leikskóla á misjöfnum forsendum. Leikskólinn er skóli án aðgreiningar þar sem öllum börnum er sinnt eins og best er kostur. Stefnt er að enn betri leikskóla í þágu barna með aukinni áherslu á hagsmuni og velferð barnsins, á þátttöku foreldra í mótun leikskólastarfs, á menntun, réttindi og skyldur starfsliðs leikskóla og á sjálfstæði sveitarfélaga og einstakra leikskóla til að móta rekstur sinn og faglegt starf í leikskólum.

Ný löggjöf um leikskóla skapar tækifæri til að standa enn betur vörð um hagsmuni barna. Það er síðan sveitarfélaga, skóla, starfsfólks þeirra, foreldra og allra annarra sem koma að málefnum leikskóla að nýta þær leiðir sem nú hafa verið mótaðar í þágu barna. Þau gildi sem liggja til grundvallar starfi í skólum eru umburðarlyndi og kærleikur og að leikskólinn stuðli að velferð barna í víðum skilningi. Á tímum óvissu í þjóðfélaginu er mikilvægt að leikskólinn sé griðastaður barna og að jákvæðum skólabrag sé haldið á lofti.

Dagur leikskólans er kærkomið tækifæri til að breiða út boðskap leikskólans og hvetja til jákvæðrar umræðu um leikskólastarf og mikilvægi þess fyrir hvern einstakling og skólakerfið í heild sinni. Til hamingju með daginn!



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum