Hoppa yfir valmynd
30. mars 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttektir á sjálfsmatsaðferðum í grunnskólum árið 2008

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 segir að hver grunnskóli skuli meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 segir að hver grunnskóli skuli meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs. Matið á að tengjast markmiðum skólanámskrár og skulu upplýsingar um framkvæmd og umbætur birtar opinberlega. Í lögunum segir jafnframt að menntamálaráðuneytið skuli m.a. með sjálfstæðri gagnaöflun afla upplýsinga um framkvæmd laganna.

Í eldri lögum um grunnskóla nr. 66/1995 voru ákvæði þess efnis að sérhverjum skóla bæri að innleiða aðferðir til að meta skólastarfið og að á 5 ára fresti ætti menntamálaráðuneytið að taka út sjálfsmatsaðferðir skóla. Ákvæði um úttektir á sjálfsmatsaðferðum grunnskóla komu fyrst til framkvæmda haustið 2001 og stóð fyrsta umferð úttekta til vors 2003. Ráðuneytið lét gera úttektir á sjálfsmatsaðferðum í öllum grunnskólum sem þá voru 184 talsins. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að einungis í 24 skólum voru uppfyllt að öllu leyti bæði viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd sjálfsmats. Í 118 skólum reyndust sjálfsmatsaðferðirnar ófullnægjandi.

Önnur umferð úttekta hófst í febrúar 2007 og voru gerðar úttektir á sjálfsmatsaðferðum 48 skóla það ár. Niðurstöður úttektanna sem fram fóru árið 2007 og nöfn skóla voru birt með fréttatilkynningu í apríl 2008.

Árið 2008 voru teknar út sjálfsmatsaðferðir 64 skóla til viðbótar. Skólarnir sem um ræðir eru á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Suðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi. Niðurstöður úttektanna í þessum 64 skólum liggja nú fyrir. Einungis í 17 skólum voru uppfyllt bæði viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd sjálfsmats en í 37 skólum voru ófullnægjandi sjálfsmatsaðferðir.

Þeir 17 skólar þar sem bæði eru uppfyllt viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd sjálfsmats eru: Árbæjarskóli, Barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ, Borgaskóli, Breiðagerðisskóli, Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskólinn í Grindavík, Háteigsskóli, Heiðarskóli í Reykjanesbæ, Hjallaskóli, Hofstaðaskóli, Hvaleyrarskóli, Hvolsskóli, Laugalandsskóli, Lindaskóli, Njarðvíkurskóli, Vatnsendaskóli og Vogaskóli.

Í 10 skólum var niðurstaðan fullnægjandi að hluta, þ.e.a.s. að aðeins var uppfyllt að hluta annað hvort viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir eða framkvæmd sjálfsmats en sumir uppfylltu bæði viðmið um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd að hluta. Þessir skólar eru: Ártúnsskóli, Áslandsskóli, Flúðaskóli, Gerðaskóli, Grunnskólinn í Vestmannaeyjum, Hraunvallaskóli, Ingunnarskóli, Kópavogsskóli, Vallaskóli og Þjórsárskóli.

Af þeim 64 skólum sem skoðaðir voru árið 2008 var í 37 skólum hvorki uppfyllt viðmið um sjálfsmatsaðferðir né framkvæmd sjálfsmats. Þeir eru: Akurskóli, Álftanesskóli, Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, Brekkubæjarskóli, Finnbogastaðaskóli, Flóaskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grunnskóli Grundarfjarðar, Grunnskóli Ísafjarðar, Grunnskóli Snæfellsbæjar, Grunnskóli Vesturbyggðar, Grunnskóli Önundarfjarðar, Grunnskólinn á Borðeyri, Grunnskólinn á Drangsnesi, Grunnskólinn á Hellu, Grunnskólinn á Hólmavík, Grunnskólinn á Tálknafirði, Grunnskólinn í Búðardal, Grunnskólinn í Hveragerði, Grunnskólinn í Sandgerði, Grunnskólinn í Stykkishólmi, Grunnskólinn í Þorlákshöfn, Grunnskólinn Ljósaborg, Grunnskólinn Suðureyri, Grunnskólinn Tjarnarlundi, Grunnskólinn Þingeyri, Heiðarskóli í Hvalfjarðarsveit, Holtaskóli, Hólabrekkuskóli, Klébergsskóli, Laugargerðissskóli, Lágafellsskóli, Myllubakkaskóli, Reykhólaskóli, Stóru-Vogaskóli, Sunnulækjarskóli og Víðistaðaskóli.

Í framhaldi af þeim úttektum sem fram fóru árið 2007 og fyrri hluta árs 2008 bauðst ráðuneytið til að senda ráðgjafa í þá skóla sem uppfylltu hvorki viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir né framkvæmd sjálfsmats og stendur sú ráðgjöf enn yfir. Ekki hefur verið ákveðið hvort brugðist verður við með sama hætti að þessu sinni en ráðuneytið hefur óskað eftir upplýsingum um fyrirhugaða eftirfylgni frá þeim sveitarfélögum sem reka skólana þar sem úttektir voru gerðar haustið 2008. Ákvarðanir um næstu skref munu taka mið af svörum sveitarfélaganna þegar þau liggja fyrir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum