Hoppa yfir valmynd
9. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikilvægt skref til að hvetja fólk til náms

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hækka grunnframfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 20%, samhliða ýmsum aðgerðum sem ætlað er að tryggja sparnað í námslánakerfinu og atvinnuleysistryggingakerfinu sem þessari hækkun svarar.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær tillögu félags- og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra um að hækka grunnframfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 20%, samhliða ýmsum aðgerðum sem ætlað er að tryggja sparnað í námslánakerfinu og atvinnuleysistryggingakerfinu sem þessari hækkun svarar.

Í aðgerðunum nú felst:

  • Grunnframfærsla námslána hækkar í kr. 120.000,- á mánuði.
  • Tekjuskerðingarhlutfall námslána eykst úr 10% í 35%. Tekið verður upp 750.000 króna frítekjumark sem verður fimmfalt fyrir þá einstaklinga sem eru að hefja nám og hafa verið á vinnumarkaði.
  • Framfærsla einstaklinga í heimahúsum stendur í stað og verður þannig 50% af grunnframfærslu. Jafnframt er gert ráð fyrir að skólagjaldalán verði endurskoðuð í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2010-2011.
  • Dregið verður úr möguleikum á að sækja einingabært háskólanám samhliða töku atvinnuleysisbóta.
  • Atvinnuleysisskrá er nú að fullu samkeyrð við nemendaskrár háskólanna.
  • Afnuminn verður réttur námsmanna til töku atvinnuleysisbóta í sumarleyfi skóla.

Gert er ráð fyrir því að framfærsla hækki eða standi í stað hjá miklum meirihluta námsmanna eða allt að 80%. Framangreindar tillögur um breytingar á tekjuskerðingarviðmiðum koma sér best fyrir þann hóp námsmanna sem hefur minnstar tekjur. Einstaklingar í leiguhúsnæði með undir 1.760 þús. í árslaun með námi fá hækkun miðað við núverandi kerfi en þeir sem eru yfir þessum mörkum fá minna. Einstaklingar í leiguhúsnæði með tekjur yfir 3.850 þús. kr. á ári fá ekki lengur námslán eftir breytingarnar. Þær lánsáætlanir sem þegar hafa verið gefnar út af LÍN vegna skólaársins 2009-2010 gilda skv. áður útgefnum úthlutunarreglum. Hins vegar geta námsmenn afturkallað þær umsóknir og sent inn nýja skv. breyttum reglum.

Þessi aðgerð er liður í heildstæðri stefnumörkun sem nú á sér stað á vegum beggja ráðuneyta til að hvetja atvinnulausa til mennta og draga þannig úr atvinnuleysi og styðja við efnahagslega framþróun byggða á aukinni færni og þekkingu. Lykilatriði í því efni er að bæta menntaúrræði fyrir atvinnulausa og auðvelda atvinnulausum með ýmsum hætti að hefja nám.

Sérstök áhersla er nú lögð á þróun menntaúrræða fyrir þann hóp atvinnulausra sem einungis hefur lokið grunnskólaprófi en sá hópur er fjölmennastur á atvinnuleysisskrá. Búist er við tillögum í því efni á næstu vikum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum