Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Atvinnutækifærum námsmanna fjölgað

Tillaga Katrínar Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir til til þess að fjölga atvinnutækifærum námsmanna í sumar var samþykkt á fundi ríkisstjórnar Íslands í dag.

Atvinnutækifærum námsmanna fjölgað

Helstu atriði

  • Mennta- og menningarmálaráðherra tryggir námsmönnum yfir 400 sumarstörf.
  • Framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna tæplega fimmfaldað.
  • Lánasjóður íslenskra námsmanna veitir lán vegna náms í sumar.
  • Háskóli Íslands býður upp á aðstöðu til nýsköpunarverkefna og sjálfsnáms í sumar og heldur próf í sumarlok.
  • Rekstur Hugmyndahúss háskólanna og Prisma styrktur.


Tillaga Katrínar Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir til til þess að fjölga atvinnutækifærum námsmanna í sumar var samþykkt á fundi ríkisstjórnar Íslands í dag. Um er að ræða aðgerðir sem geta tryggt yfir 400 námsmönnun atvinnu í sumar.

Framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna tæplega fimmfaldað
Framlag mennta- og menningarmálaráðuneytis til Nýsköpunarsjóðs námsmanna verður tæplega fimmfaldað, úr 20 milljónum króna í 90 milljónir. Auk þess hefur Reykjavíkurborg ákveðið að auka framlag sitt úr 20 milljónum í 30 þannig að sjóðurinn mun samtals hafa 120 milljónir króna til ráðstöfunar. Það er mat Nýsköpunarsjóðs námsmanna að með þessu framlagi megi tryggja yfir 400 námsmönnum sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarstörf.

Verkefni sem námsmenn vinna með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna eru jafnan unnin í samstarfi við þriðja aðila, þ.e. stofnanir, sveitafélög eða fyrirtæki sem leggja þá til mótframlag sem samsvarar eins mánaðar launum gegn tveggja mánaða launum frá sjóðnum. Því er um að ræða ákaflega hagstætt samstarf á milli allra aðila og mikilvæga tengingu á milli náms og atvinnulífs. Ef vel tekst til má reikna með að allt að 30-40% styrkþega sjóðsins verði framtíðarstarfsmenn þeirra sem verkefnin eru unnin hjá og allt að 5-10% verkefna sem styrkþegar vinni að komi til með að hafa umtalsvert nýsköpunargildi. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur hvatt stofnanir sínar til að efna til samstarfs við námsmenn í gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna og mun leggja þeim til fé til þess að greiða mótframlag. Þá geta þau fyrirtæki sem taka þátt í verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna sótt um 15% skattafrádrátt á grundvelli nýrra laga um nýsköpunarfyrirtæki.

Lánshæft nám og próf í sumar
Lánasjóður íslenskra námsmanna mun veita námsmönnum framfærslulán fyrir lánshæft nám í sumar en flestir háskólar landsins bjóða að jafnaði upp á námskeið og/eða próf á sumrin. Háskóli Íslands mun bjóða stúdentum sínum upp á að nýta húsnæði og búnað skólans til að stunda lánshæft sjálfsnám og vinna að nýsköpunarverkefnum. Auk þess býður skólinn upp á próf í sumarlok.

Hugmyndahúsið og Prisma:
Listaháskóli Íslands hefur í samstarfi við aðra háskóla sett af stað verkefni sem miða einkum að því koma til móts við þarfir ungs fólks sem misst hefur vinnuna. Um er að ræða svokallað Prisma nám sem er stutt háskólanám ætlað atvinnulausum og Hugmyndahús háskólanna sem er vettvangur fyrir frumkvöðla og þekkingarvinnu í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð. Bæði verkefnin hafa gengið mjög vel og hefur ríkisstjórnin samþykkt að mennta- og menningarmálaráðuneytið veiti samtals 10 milljónir króna til þess að halda þessum verkefnum áfram í ár.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum