Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innritun í framhaldsskóla á haustönn 2010

Öllum nemendum úr 10. bekk sem sóttu um að hefja nám í framhaldsskóla í haust hefur verið boðin skólavist. Betur hefur gengið að útvega öllum nýnemum skólavist en undanfarin ár vegna breytts fyrirkomulags á innritun. Innritun nýnema lauk 11. júní síðastliðinn.

Innritun í framhaldsskóla

Helstu atriði:

  • Allir 10. bekkingar fá skólavist í framhaldskólum í haust.
  • Nýnemar fá almennt skólavist í þeim skólum sem þeir helst kjósa.
  • Betur gekk að útvega öllum nýnemum skólavist með nýju fyrirkomulagi en undanfarin ár.

Öllum nemendum úr 10. bekk sem sóttu um að hefja nám í framhaldsskóla í haust hefur verið boðin skólavist. Betur hefur gengið að útvega öllum nýnemum skólavist en undanfarin ár vegna breytts fyrirkomulags á innritun. Innritun nýnema lauk 11. júní síðastliðinn og bárust alls umsóknir frá 4.356 nemendum sem er um 96,5% þeirra sem skráðir voru í 10. bekk haustið 2009 og hefur aldrei áður verið svo hátt. Um 95% umsækjenda hafa nú fengið skólavist í þeim skólum sem þeir sóttu um í fyrsta eða öðru vali. Þar af fá um 82% skólavist í skóla er þeir sóttu um sem fyrsta val. Umsækjendur sem ekki fengu inni í þeim skólum er þeir völdu í fyrsta eða öðru vali hafa fengið tilboð frá ráðuneytinu um skólavist í öðrum skólum.

Framhaldsskólarnir fengu jafnframt um 4.100 umsóknir frá eldri umsækjendum (fæddir 1993 og fyrr). Það eru heldur færri umsóknir en í fyrra. Við afgreiðslu umsókna eldri nemenda njóta ólögráða umsækjendur forgangs og eiga rétt á skólavist samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Þeir nemendur yngri en 18 ára sem voru við nám á vorönninni eiga rétt á áframhaldandi skólavist í sínum skóla hafi þeir haldið skólareglur.

Innritun með breyttu sniði
Innritun 10. bekkinga fór að þessu sinni fram með talsvert breyttu sniði. Forinnritun var haldin í apríl til leiðsagnar fyrir skóla og menntayfirvöld um óskir nemenda. Niðurstöður forinnritunar reyndust mjög líkar endanlegum umsóknum. Hver umsækjandi gat nú valið einn aðalskóla og annan til vara en áður gátu umsækjendur valið allt að þrjá varaskóla. Þá var búinn til viss forgangur tengdur grunnskólum. Þannig urðu allir framhaldsskólar að líta sérstaklega til með nemendum í grunnskólum í þeirra nágrenni og veita umsækjendum þaðan forgang að skólavist í að lágmarki 45% lausra nýnemaplássa. Skilyrði fyrir forgangi á vissar námsbrautir er að umsækjendur uppfylli inntökuskilyrði.

Alls völdu 65% nýnema forgangsskóla sinn í fyrsta vali. Við afgreiðslu umsókna röðuðu framhaldsskólarnir umsækjendum í inntökuröð eftir inntökuskilyrðum og öðrum forsendum við inntöku nýnema. Raðað var óháð því hvort nemendur höfðu valið skólann í fyrsta eða öðru vali. Þannig var í senn reynt að tryggja valfrelsi nemenda um skóla og jafnframt gefa þeim kost á að njóta forgangs að heimaskólum. Nokkuð misjafnt er hve hátt hlutfall forgangsnema er í hverjum framhaldsskóla. Hæst er það á landsbyggðinni þar sem algengt er að yfir 90% nemenda komi af svæði skólanna. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið almennt lægra þar sem um fleiri skóla er að velja í nágrenninu. Í heild virðast framangreindar breytingar á fyrirkomulagi innritunar nemenda úr 10. bekk í framhaldsskóla hafa skilað tilætluðum árangri. Betur hefur gengið að útvega öllum nýnemum skólavist en á undanförnum árum.

 

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum