Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ríflega 155 milljónir króna til íslenskra námsmanna á Norðurlöndum

Ríflega 155 milljónum króna hefur verið úthlutað til íslenskra námsmanna á Norðurlöndum. Öllum umsækjendum sem uppfylltu úthlutunarreglur var úthlutað styrk í allt að þrjá mánuði.
Nordurlönd
Nordurlond

Ríflega 155 milljónum króna hefur verið úthlutað til íslenskra námsmanna á Norðurlöndum. Öllum umsækjendum sem uppfylltu úthlutunarreglur var úthlutað styrk í allt að þrjá mánuði. Alls reyndust 532 námsmenn uppfylla skilyrði fyrir styrkveitingu.

Í kjölfar fjármálakreppunnar og frétta af bágri fjárhagsstöðu íslenskra námsmanna erlendis ákváðu menntamála- og samstarfsráðherrar Norðurlandanna að styrkja íslenska námsmenn á Norðurlöndum. Árið 2009 var ríflega hundrað milljónum íslenskra króna úthlutað til námsmanna í fjárhagvanda. Í ár veitti norræna ráðherranefndin aftur fjármagni til þessa verkefnis og var auglýst eftir umsóknum á vormánuðum. Styrkirnir eru ætlaðir námsmönnum sem eru í fjárhagsvanda vegna atvinnuleysis yfir sumarmánuðina og hafa hvorki möguleika á námslánafyrirgreiðslu né rétt á atvinnuleysisbótum. Í ár var einnig auglýst eftir styrkjum frá námsmönnum sem eru að hefja nám á Norðurlöndum haustið 2010 og eru án atvinnu í sumar.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti var falið að hafa umsjón með styrkjunum. Samið var við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins um að annast móttöku og umsýslu styrkumsókna en sérstök úthlutunarnefnd ákvarðaði úthlutanir. Úthlutunarnefndin studdist við þær viðmiðunarreglur að umsækjandi væri við nám eða á leið í nám í skóla á Norðurlöndum, að nám umsækjanda væri lánshæft skv. úthlutunarreglum LÍN, að umsækjandi fengi ekki námslán fyrir meira en 60 ECTS einingum á námsárinu, að umsækjandi væri ekki í lánshæfu sumarnámi, að umsækjandi væri án atvinnu og ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Umsóknarfrestur var til 15. júní. Sækja mátti um styrk til framfærslu í 1-3 mánuði.

Mikill áhugi reyndist vera fyrir þessum styrkjum og bárust 572 umsóknir sem er nær 43% aukning frá árinu 2009. Flestar umsóknir eða 498 þeirra bárust frá námsmönnum í Danmörku, 65 frá Svíþjóð, 8 frá Noregi, engin umsókn barst frá Finnlandi.

Í ár, líkt og á síðasta ári, var öllum umsækjendum sem uppfylltu úthlutunarreglur úthlutað styrk í allt að þrjá mánuði. Alls reyndust 532 umsækjendur uppfylla skilyrði fyrir styrkveitingu eða um 93% umsækjanda og nam heildarúthlutun styrkja ríflega 155 milljónum íslenskra króna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum