Hoppa yfir valmynd
11. mars 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nefnd um endurskoðun laga um Ríkisútvarpið

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað nefnd um breytingu á lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.

Um mitt ár 2009 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp um almannaútvarp á Íslandi. Verkefni hans var að leggja mat á áhrif þeirra breytinga sem gerðar voru á Ríkisútvarpinu með nýjum lögum árið 2007 og gera tillögur að úrbótum. Starfshópurinn skilaði skýrslu með tillögum sínum til ráðherra í byrjun árs 2010. Í framhaldi kynnti ráðherra tillögurnar fyrir stjórn og stjórnendum RÚV með ósk um að þær tillögur sem ekki kölluðu á lagabreytingar yrðu teknar til greina og var brugðist vel við því. Tillögurnar hafa einnig verið hafðar til hliðsjónar við gerð nýs samnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins við RÚV um útvarpsþjónustu í almannaþágu.

Í ljós hefur komið að margar af tillögum starfshópsins um úrbætur á RÚV kalla á breytingar á lögum nr. 6/2007 auk þess sem nýlegar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna gildandi laga kalla einnig á lagabreytingar. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur því skipað nefnd um breytingu á lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. Er henni ætlað að vinna frumvarp þar sem tekið er mið af tillögum starfshópsins og athugasemdum. Jafnframt er nefndinni ætlað að taka afstöðu til eftirfarandi þátta:

  • Hvort auka þurfi sjálfstæði RÚV sem fjölmiðils í almannaþágu.
  • Hvort stofna eigi sérstakt dótturfélag utan um starfsemi félagsins sem ekki fellur undir  útvarpsþjónustu í almannaþágu.
  • Aukins gagnsæis í rekstri RÚV.
  • Aukins lýðræðis í stjórnarfyrirkomulagi RÚV.
  • Leiða til að auka og tryggja sjálfstæði og starfsöryggi starfsmanna RÚV við fréttir og tengda dagskrárgerð.
  • Ábyrgðar mennta- og menningarmálaráðherra á hlutafélaginu RÚV.
  • Hlutverks stjórnar og skipunar hennar.
  • Kosta og galla þess að breyta rekstrarformi RÚV.

Gert er ráð fyrir að í vinnu sinni leiti nefndin álits stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. og annarra aðila sem hún telur málið varða. Nefndinni er ætlað að skila tillögum sínum í formi frumvarps fyrir lok maí nk. og verður það birt á vef ráðuneytisins og almenningi gefinn kostur á að skila inn athugasemdum við það. Áætlað er að mennta- og menningarmálaráðherra leggi frumvarpið fram á haustþingi 2011.

Nefndin er skipuð tveimur fulltrúum úr starfshóp um almannaútvarp á Ísland ásamt þremur sérfræðingum mennta- og menningarmálaráðuneytisins hins vegar. Sigtryggur Magnason, leikskáld, er formaður nefndarinnar en hann var einnig formaður starfshópsins og er Elfa Ýr Gylfadóttir deildarstjóri fjölmiðladeildar mennta- og menningarmálaráðuneytisins, varaformaður. Aðrir nefndarmenn eru Jón Vilberg Guðjónsson skrifstofustjóri lögfræðisviðs mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Þorgeir Ólafsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum