Hoppa yfir valmynd
30. mars 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Málefni Ríkisútvarpsins hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)

Íslensk stjórnvöld hafa gert ESA grein fyrir vinnu sem stendur yfir til að bregðast við ákvörðun ESA um svonefndar um viðeigandi ráðstafanir í fjárhags- og lagaumhverfi RÚV og óskað eftir fresti til loka apríl nk. til að ljúka henni.

esa - rúv
esa - rúv
Helstu atriði:
  • Íslensk stjórnvöld hafa gert ESA grein fyrir vinnu sem stendur yfir til að bregðast við ákvörðun ESA um viðeigandi ráðstafanir í fjárhags- og lagaumhverfi RÚV og óskað eftir fresti til loka apríl nk. til að ljúka henni.
  • Ákvörðun ESA, sem grundvallast á leiðbeinandi reglum stofnunarinnar um tilhögun ríkisstyrkja til útvarpsþjónustu í almannaþágu, felur í sér að gera þurfi skýrari skil á milli almannaþjónustuútvarps og þess hluta í starfsemi RÚV sem er skilgreindur sem samkeppnisrekstur.
  • Nefnd um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið fjallar um og leggur til breytingar á lögum nr. 6/2007 til að bregðast við athugasemdum ESA.

Íslensk stjórnvöld hafa frá árinu 2004 átt í samskiptum við ESA um tilhögun ríkisaðstoðar til RÚV. Um slíka aðstoð gilda leiðbeinandi reglur ESA frá árinu 2010 um ríkisaðstoð til útvarpsþjónustu í almannaþágu. Í stuttu máli mæla reglurnar fyrir um að rekstur almannaþjónustufjölmiðla skuli hafa sem minnst áhrif á almenna samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Jafnframt er í reglunum fjallað um félagslegt, menningarlegt og lýðræðislegt mikilvægi almannaþjónustufjölmiðla.

Líkt og fram kemur í fréttatilkynningu ESA dags. 10. febrúar sl. hafa íslensk yfirvöld og ESA í nokkurn tíma átt í viðræðum vegna athugasemda sem stofnunin hefur sett fram við fyrirkomulag útvarpsþjónustu í almannaþágu og hafa þegar verið gerðar ákveðnar breytingar til að bregðast við athugasemdum ESA, bæði í gildandi lögum um RÚV og í þjónustusamningi. Þar má nefna að formlegt eignarhald RÚV hefur verið fært til fjármálaráðherra, en með því var skilið á milli eignarhalds og opinbers eftirlits með starfsemi RÚV.

Með ákvörðun þann 9. febrúar sl. lagði ESA formlega til við íslensk stjórnvöld frekari breytingar á fjárhags- og lagaumhverfi RÚV. Um er að ræða svokallaðar tillögur um viðeigandi ráðstafanir, sbr. 18. gr. bókunar 3 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Tillögur ESA og fyrrnefndar viðmiðunarleiðbeiningar eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar, www.eftasurv.int.

Meðal þeirra ráðstafana sem ESA hefur lagt til er að útlistuð verði nánar málsmeðferð við breytingar á opinberu þjónustuhlutverki RÚV, að sett verði leiðbeinandi viðmið um ákvörðun gjaldskrár fyrir þjónustu sem RÚV veitir vegna opinberrar þjónustu og að tekinn verði af allur vafi um að starfsemi RÚV sem fellur utan hlutverks þess sem veitanda almannaþjónustu skuli rekin á markaðsforsendum.

Í ákvörðun ESA var þess óskað að íslensk stjórnvöld svöruðu tillögum ESA um viðeigandi ráðstafanir innan sex vikna frá dagsetningu ákvörðunarinnar, eftir atvikum með því að gangast við þeim breytingum sem stofnunin telur æskilegar.

Íslensk stjórnvöld hafa komið svari á framfæri við ESA þar sem greint er frá því að frumvarp um fjölmiðla liggi nú fyrir Alþingi. Þar sé gert er ráð fyrir stofnun fjölmiðlanefndar sem hafi m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi RÚV. Jafnframt er frá því greint að tillögur stofnunarinnar um viðeigandi ráðstafanir verði teknar fyrir af nýstofnaðri nefnd sem ætlað er að endurskoða lagaumhverfi Ríkisútvarpsins. Í kjölfar þess mun málið verða lagt fyrir ríkisstjórn. Af þeim sökum var óskað eftir því að frestur til að svara tillögum ESA yrði framlengdur til loka aprílmánaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum