Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norrænn loftslagsdagur 2011

Norræni loftslagsdagurinn verður haldinn hátíðlegur í Norræna húsinu, þann 11. nóvember kl. 15-16:30, en átakið er sameiginlegt verkefni norrænu menntamálaráðherranna.

Nordisk-Klimadag-ID-2011-13
Nordisk-Klimadag-ID-2011-13
Norræni loftslagsdagurinn

verður haldinn hátíðlegur í Norræna húsinu, þann 11. nóvember kl. 15-16:30, en átakið er sameiginlegt verkefni norrænu menntamálaráðherranna. Markmið dagsins er meðal annars að stuðla að þátttöku nemenda í umræðu um loftslagsmál og efla norrænt skólasamstarf á sviði loftslagsmála. Þema loftslagsdagsins í ár er matur og loftslag.

Í tilefni Norræna loftslagsdagsins hefur ýmislegt verið gert í ár. Í síðustu viku hélt Menntaskólinn í Kópavogi keppni um hollasta skyndibitann. Keppnin fól í sér að undirbúa og framreiða skyndibita sem er loftslagsvænn, bragðgóður og hefur norrænar matreiðsluhefðir að leiðarljósi. Ráðuneytið hefur hvatt grunn- og framhaldsskólakennara til að fá nemendur til að ræða spurninguna: „Hvaða matur er loftslagsvænn og af hverju?“. Gefinn er kostur á kynningum í Norræna húsinu, á loftslagsdeginum. Náttúruskóli Reykjavíkur hélt námskeið fyrir kennara þann 8. nóvember um loftslagsmál, mat og fæðuöflun. Þar var bæði fræðileg umfjöllun og rædd kennsluverkefni sem henta almennum kennurum sem kennurum í heimilisfræði og hússtjórn. Loks birtir Námsgagnastofnun ítarefni um loftslagsmál og er það ætlað bæði kennurum og nemendum.

Norræn samkeppni er haldin í þriðja sinn á vegum norrænu menntamálaráðherranna. Í ár er keppnin um nýjan norrænan skyndibita og geta kennarar og nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum tekið þátt. Ráðuneytið hvetur grunn- og framhaldsskólakennara og nemendur til að taka þátt en tímafrestur til að skila inn verkefnum er á miðnætti þann 11. nóvember á vefsíðunni klimanorden.org. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar.

Hátíðardagskrá verður haldin í Norræna húsinu, þar sem Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun flytja ávarp. Halldór Björnsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í loftslagsmálum flytur erindi og Dominique Plédel Jónsson fjallar um „slow food“ og loftslag. Nemendur koma í heimsókn og kynna hugmyndir sínar um loftslagsvænan mat og veitt verða verðlaun í matreiðslukeppni Menntaskólans í Kópavogi.

Loftslagsvænn matur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum