Hoppa yfir valmynd
12. september 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viðamikil úttekt á námi sjómanna

Alþjóðasamþykkt um menntun, þjálfun og vaktstöður sjómanna framfylgt

Mennta- og menningarmálaráðuneytið fer með yfirstjórn málefna er varða sjómannaskóla og hefur eftirlit með að námskrár sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga, en Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins og Verkmenntaskólinn á Akureyri bjóða upp á nám til alþjóðlegra skipstjórnar- og vélstjórnarréttinda á farþega- og flutningaskipum, sbr. lög um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Dagana 18.-25. september nk. munu fulltrúar Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA) og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gera úttekt á stjórnsýslu og framkvæmd Íslands á tilskipun Evrópusambandsins um lágmarksþjálfun sjómanna nr. 2008/106/EB. Tilskipunin er innleiðing á alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun og vaktstöður sjómanna (STCW). Ísland hefur fullgilt alþjóðasamþykktina og ber að innleiða ákvæði tilskipunarinnar vegna EES samningsins og hefur það verið gert með lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr.  76/2001 með síðari breytingum og reglugerð um sama efni nr. 416/2003 með síðari breytingum.

Úttektarhópurinn mun eiga fundi með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Siglingastofnunar Íslands, Tækniskólans og Slysavarnaskóla sjómanna og starfsgreinaráða. Mikilvægt er að sjómannamenntun hér á landi sé viðurkennd, en með því gefst íslenskum sjómönnum kostur á að starfa á skipum sem eru skráð erlendis.

Innanríkisráðuneytið fer með yfirstjórn málefna er varða öryggisfræðslu sjómanna, en Slysavarnaskóli sjómanna býður upp á slíkt nám sem er forsenda fyrir útgáfu alþjóðlegra skipstjórnar- og vélstjórnarréttinda á farþega- og flutningaskipum, sbr. lög um Slysavarnarskóla sjómanna nr.  33/1991.

Siglingastofnun Íslands hefur eftirlit með að nám við sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga og gefur stofnunin út alþjóðleg atvinnuskírteini til íslenskra skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á farþega- og flutningaskipum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum