Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Styrkir úr tónlistarsjóði árið 2006 – síðari úthlutun

Menntamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki úr tónlistarsjóði, samkvæmt lögum um tónlistarsjóð nr. 76/2004, til verkefna sem efnt verður til síðari hluta árs 2006.

Menntamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki úr tónlistarsjóði, samkvæmt lögum um tónlistarsjóð nr. 76/2004, til verkefna sem efnt verður til síðari hluta árs 2006.

Næst verður auglýst eftir umsóknum í október 2006 vegna verkefna sem framkvæmd verða fyrri hluta árs 2007.

Hlutverk tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild.

Tónlistardeild veitir styrki til almennrar tónlistarstarfsemi, svo sem tónlistarflutnings, tónlistarhópa, tónlistarhátíða, rannsókna og skráningar á tónlist, varðveislu tónlistar og annarrar tónlistarstarfsemi. Markaðs- og kynningardeild veitir m.a. styrki til markaðssetningar og kynningarverkefna í tengslum við íslenska tónlist og tónlistarmenn og til annarra verkefna sem miða að kynningu á íslenskri tónlist og tónlistarmönnum innan lands og erlendis.

Að jafnaði er hvorki gert ráð fyrir styrkveitingum til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna eða viðburða sem þegar hafa átt sér stað. Styrkir úr tónlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna og að jafnaði ekki lengur en til eins árs í senn.

Umsókn skal m.a. innihalda nákvæmar upplýsingar um umsækjanda og samstarfsaðila, nafn þess sem annast samskipti við sjóðinn, upplýsingar um starfsferil, faglegan og listrænan bakgrunn umsækjanda og annarra er að verkefninu koma, lýsingu á verkefninu, markmiðum þess og samhengi við tilgang sjóðsins. Einnig verk- og tímaáætlun, fjárhagsáætlun og upplýsingar um aðra styrki sem verkefnið hefur hlotið eða sótt um. Staðfest gögn til stuðnings umsókninni skulu fylgja ef þau eru fyrir hendi.

Við mat á umsóknum er m.a. tekið tillit til listræns gildis og mikilvægis verkefnis fyrir almenna tónlistarstarfsemi og eflingu íslenskrar tónlistar, gildi og mikilvægis verkefnis fyrir kynningu og markaðssetningu íslenskrar tónlistar, starfsferils, faglegs og/eða listræns bakgrunns umsækjanda og fjárhagsgrundvallar verkefnisins.

Öll tilskilin fylgigögn þurfa að berast með umsókn. Umsóknir og fylgigögn sem berast eftir að umsóknarfrestur er útrunnin verða ekki teknar til umfjöllunar. Gert er ráð fyrir að umsóknir hljóti afgreiðslu innan sex til átta vikna frá auglýstum skilafresti.

Umsóknum skal skila á þar til gerðum eyðublöðum sem fást í menntamálaráðuneyti eða á vef þess: menntamalaraduneyti.is. Umsóknirnar skulu vera í þríriti og öll eintök undirrituð. Umsóknarfrestur rennur út mánudaginn 22. maí 2006.

Umsóknir skulu sendar til: Menntamálaráðuneyti, tónlistarsjóður, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum