Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

112-dagurinn 2009

112 dagurinn 2009
112dagurinn2009

Undanfarin fimm ár, þann 11. febrúar, hefur 112-dagurinn verið haldinn um allt land. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið, starfsemi aðila sem því tengjast og auka vitund almennings um mikilvægi starfseminnar og not. Að deginum standa Neyðarlínan, Ríkislögreglustjóri, Brunamálastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, Landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir.

Í ár hafa forsvarsaðilar þessa verkefnis ákveðið að beina sjónum sérstaklega að börnum og ungmennum, öryggi þeirra og velferð. Markmiðið er annars vegar að vekja athygli á því víðtæka öryggiskerfi sem börn og ungmenni hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið. Hins vegar vilja skipuleggjendur benda á leiðir fyrir börn og ungmenni til að taka þátt í starfi samtaka á svið öryggis- og velferðarmála og stuðla að eigin öryggi og annarra með þekkingu í skyndihjálp, slysavörnum og eldvörnum. Er það í góðu samræmi við markmið nýrra leik- og grunnskólalaga.

Skipuleggjendur dagins munu koma fræðslu- og kynningarefni á framfæri við grunnskóla. Auk þess eru hugmyndir uppi um að skipuleggja stuttar heimsóknir í skóla þennan dag. Efnið geta kennarar notað að vild til að ræða um daginn, markmið hans og tilgang. Þeir geta einnig snúið sér til ýmissa viðbragðsaðila. óskað eftir nánari upplýsingum og að þeir heimsæki skólann.

Í október á síðasta ári sendi menntamálaráðherra skólastjórnendum skilaboð um mikilvægi þess að á tímum óvissu í þjóðfélaginu sé skólinn griðastaður nemenda og að jákvæðum skólabrag sé haldið á lofti. Þá hvatti ráðherra skólastjórnendur til að skoða hvaða úrræði eru fyrir hendi innan skólans til að takast á við núverandi aðstæður á sem uppbyggilegastan hátt. Um leið og skilaboð þessi eru ítrekuð hvetur ráðuneytið til þess að skólinn þinn taki þátt í þessu verkefni í samvinnu við skipuleggjendur 112-dagsins. Telur ráðuneytið að hér sé um mikilvægt og þarft verkefni að ræða sem vert er að gefa grunnskólanemendum kost á að taka þátt í.

Næstu daga mun Neyðarlínan senda nánari upplýsingar um verkefnið og varpa fram hugmyndum um samstarf framkvæmd þess.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum