Hoppa yfir valmynd
23. mars 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innritun í framhaldsskóla á haustönn 2009

Til skólastjóra grunnskóla

Sem kunnugt er voru sett ný lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla vorið 2008 og munu þau að fullu ganga í gildi haustið 2011. Þessi lög breyta skólastarfi á ýmsa lund sem verður ekki rakið hér nema hvað innritun í framhaldsskóla varðar. Innritunarkerfi menntamálaráðuneytisins verður opnað nemendum föstudaginn 15. maí og því verður lokað á miðnætti fimmtudaginn 11. júní. Ekki er unnt að hafa frestinn lengri því að starfsfólk framhaldsskólanna þarf að taka lögbundin sumarleyfi sín áður en skólarnir verða opnaðir eftir verslunarmannahelgi. Bæklingurinn Nám að loknum grunnskóla verður ekki prentaður að þessu sinni, en rafræn útgáfa hans verður aðgengileg á vefnum menntamálaráðuneyti.is og menntagatt.is. Útgáfan verður tilbúin í lok mars og þýðingar á átta tungumálum (enska, rússneska, spænska, pólska, víetnamska, tælenska, serbneska og litháíska) verða settar inn jafnóðum og þær berast.

Framhaldsskólarnir hafa skilgreint inntökuskilyrði á einstakar námsbrautir og ráðuneytið fyrir sitt leyti staðfest þau. Inntökuskilyrðin verða birt á heimasíðum skólanna. Þar er í meginatriðum höfð hliðsjón af sex námsgreinum sem eru íslenska, stærðfræði, enska, danska, samfélagsfræði og náttúrufræði. Auk þess er litið til skólasóknar, einkunna í öðrum greinum sem og vitnisburðar um þátttöku í félagsstörfum.

Í ljósi samræðna við skólastjóra og skólameistara vill ráðuneytið ítreka eftirfarandi atriði:

  • Á prófskírteini við lok 10. bekkjar skulu allar einkunnir vera í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár grunnskóla. Ef nemandi fær einkunn í samræmi við aðhæfða námskrá skal sú einkunn stjörnumerkt.
  • Hafi nemandi fengið undanþágu frá einhverri námsgrein, þá ber að geta þess í nýjum undanþágureit í Mentor og fylgja þá upplýsingarnar nemandanum til viðkomandi framhaldsskóla.

Þær upplýsingar sem birtast á prófskírteinum nemenda þurfa að vera skýrar og afdráttarlausar til þess að innritun geti gengið hnökralaust fyrir nemendur. Framhaldsskólar hafa fræðsluskyldu gagnvart ólögráða nemendum og menntamálaráðuneytið mun sjá til þess að allir brautskráðir grunnskólanemendur fái skólavist. Þegar nær dregur innritun verður skólastjórum grunnskóla með 10. bekk sent umburðarbréf með nánari upplýsingum og leiðbeiningum um komandi innritun.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum