Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dreifibréf undanþágunefndar grunnskóla 2009-2010

Til skólastjóra grunnskóla

Endurskipað hefur verið í undanþágunefnd grunnskóla skv. lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í nefndinni eiga sæti Rósa Ingvarsdóttir kennari, fulltrúi heildarsamtaka kennara, Guðmundur B. Kristmundsson dósent, fulltrúi samstarfsnefndar um háskólastigið og Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir lögfræðingur, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Formaður án tilnefningar er Sigríður Lára Ásbergsdóttir sérfræðingur í menntamálaráðuneyti. Starfsmaður og jafnframt varaformaður nefndarinnar er Erla Ósk Guðjónsdóttir stjórnarráðsfulltrúi í menntamálaráðuneyti, netfang: [email protected]

Í ljósi gildistöku laganna á síðasta ári telur undanþágunefnd rétt að vekja athygli á lögunum og nýmælum sem í þeim felast, sjá nánar http://www.nymenntastefna.is/kennarar/log/

Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð við 18. gr. laganna um starfsreglur undanþágunefndar. Vonast er til þess að reglugerðin verði gefin út í þessum mánuði.

Af orðalagi 18. gr. leiðir, að auglýsa ber lausar kennslustöður a.m.k. tvisvar sinnum. Þó er undanþágunefnd heimilt, sbr. 3. mgr. 18. gr. að víkja frá kröfu um endurtekna auglýsingu þegar sótt er um undanþágu til að endurráða einstakling sem er í námi til kennsluréttinda. Slíkri umsókn skal fylgja staðfesting á að viðkomandi sé í námi og áætlun um námsframvindu.

Skólastjóra er ekki skylt að leita til undanþágunefndar sé um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum á viku eða minna, sbr. 3. mgr. 11. gr.
Samkvæmt greininni er skólastjóra heimilt að ráða sérfræðing tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til að kenna sérgrein sína, enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku. 

Í fylgiskjali við kjarasamning Félags grunnskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga þar sem fjallað er um auglýsingar starfa segir m.a. eftirfarandi: „Öll störf skulu auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi. Skal það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó er ekki skylt að auglýsa afleysingastörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda, eða störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur eða tímavinnustörf.”
Undanþágunefnd lítur svo á að ofangreint frávik frá skyldu um að auglýsa starf eigi einungis við þegar um er að ræða kennara með leyfisbréf. Hafi skólastjóri ekki tök á að ráða einstakling með leyfisbréf til kennslu á grunnskólastigi til að sinna afleysingastörfum ber að auglýsa stöðuna.

Hvað varðar birtingarstað auglýsinga lítur undanþágunefnd svo á að nægilegt sé að auglýsa annað hvort í dagblaði sem borið er út á landsvísu eða á sérstöku vefsvæði um laus störf hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi.
 Að öðru leyti leyfir undanþágunefnd grunnskóla sér að vekja athygli á eftirfarandi:

1. Að undanþágunefnd tekur til afgreiðslu eingöngu umsóknir er varða kennslustörf, ekki umsóknir er varða stuðningsstörf.
2. Þegar um er að ræða umsókn vegna kennslu í skólaíþróttum ber að tilgreina hvort um sé að ræða sund og/eða íþróttakennslu.
3. Að afrit af auglýsingum þurfa að fylgja umsókn þar sem tilgreindar eru dagsetningar á birtingu auglýsinga, kennslugreinar og aldursstig nemenda.
4. Að fáist heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann gildir sú heimild aldrei lengur en til eins árs í senn.
5. Ekki er heimilt að setja starfsmann sem sinna á kennslustarfi á launaskrá fyrr en undanþáguheimild liggur fyrir.
6. Að ekki má endurráða slíkan starfsmann án undangenginnar auglýsingar.
7. Ófullnægjandi  umsókn verður ekki tekin til afgreiðslu.

Nefndin vill að lokum benda á að hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar um starf undanþágunefndar grunnskóla á heimasíðu menntamálaráðuneytis www.menntamalaraduneyti.is

Með ósk um ánægjulegt samstarf.

 



 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum