Hoppa yfir valmynd
15. júní 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dreifibréf vegna viðbragðsáætlunar almannavarna vegna inflúensufaraldurs

Til stjórnenda leik-, grunn-, framhalds- og háskóla, sveitarfélaga og skólaskrifstofa.

Undanfarið hefur verið mikil umræða um inflúensufaraldur sem átti upptök sín í Mexíkó. Góðu heilli varð minna úr en ætlað var, en eigi að síður er nauðsynlegt að vera á varðbergi.

Fyrir tveimur árum var skipaður starfshópur til þess að skipuleggja viðbrögð í skólum ef inflúensufaraldur á heimsvísu brytist út. Hópinn skipuðu fulltrúar skólastjóra, skólameistara, Sambands íslenskra sveitarfélaga, samtaka kennara og foreldra og samstarfsnefndar háskólastigsins. Hópurinn skilaði ítarlegum tillögum sem eru hluti af viðbragðsáætlun almannavarna er kom út í fyrra. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að allir skólar geri eigin viðbragðsáætlanir.

Skólar eru fjölmennustu vinnustaðir Íslands en alls eru liðlega 100.000 manns við nám, kennslu og önnur störf í um 500 skólum frá leikskólastigi til háskóla. Mikilvægt er að skólar eigi vandaða viðbragðsáætlun brjótist út skæður inflúensufaraldur.

Menntamálaráðuneytið hefur verið í samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um útfærslu á viðbragðsáætlunum fyrir skóla. Ákveðið hefur verið að senda öllum skólastjórnendum nánari leiðbeiningar um gerð slíkra áætlana. Meðal gagna verður sniðmát sem á að auðvelda þá vinnu fyrir einstakar stofnanir. Sniðmátið verður sent skólunum fyrir 10. ágúst næstkomandi ásamt leiðbeiningum um framkvæmd og verklok.

Ýmsar upplýsingar um heimsfaraldur inflúensu er að finna á www.influensa.is og www.almannavarnir.is.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum