Hoppa yfir valmynd
22. desember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innritun fatlaðra nemenda í framhaldsskóla 2010

Til skólastjóra grunnskóla í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Garðabæ

Innritun fatlaðra nemenda, sem óska eftir skólavist á starfsbrautum framhaldsskóla, fer fram fyrr en innritun almennt í framhaldsskóla. Þetta er gert til þess að framhaldsskólar, nemendur og foreldrar fái meira svigrúm til að undirbúa framhaldsskólavistina. Innritað verður frá 18. janúar til 26. febrúar 2010. Tímamörk almennrar innritunar gilda þó fyrir þær umsóknir sem berast seinna. Það eru vinsamleg tilmæli mennta- og menningarmálaráðuneytis að þér komið upplýsingum þessum á framfæri við nemendur sem málið varðar og forráðamenn þeirra.

Starfsbrautir á höfuðborgarsvæðinu eru starfræktar við Borgarholtsskóla, Fjölbrautaskólann við Ármúla, Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Fjölbrautaskólann í Garðabæ, Flensborgarskólann í Hafnarfirði, Iðnskólann í Hafnarfirði, Menntaskólann í Kópavogi og Tækniskólann. Upplýsingar um starfsbrautir er að finna á heimasíðum skólanna og hjá forsvarsfólki starfsbrauta. Einnig má finna upplýsingar í vefritinu Nám að loknum grunnskóla sem aðgengilegt er á vef Menntagáttar, menntagatt.is

Umsækjendur og forráðamenn þeirra skulu snúa sér beint til viðkomandi framhaldsskóla og sækja um á eyðublöðum sem skólinn lætur þeim í té. Á umsóknareyðublaðið skal tilgreindur varaskóli þar sem ekki er sjálfgefið að skólinn sem sótt er um sem fyrsta kost geti veitt nemandanum skólavist.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum