Hoppa yfir valmynd
3. september 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Byggjum á bjartsýni og hlúum að velferð og vellíðan í skólum

Til skóla á öllum skólastigum, sveitarfélaga, skólanefnda, foreldrafélaga og ýmissa hagsmunaaðila

Reykjavík 3. september 2010

Menntakerfið gegnir mikilvægu hlutverki í endurreisn samfélagsins. Ég leyfi mér að fullyrða að fyrir þjóð sem er að byggja sig upp skiptir öflugt menntakerfi sköpum. Árangur í uppbyggingu samfélagsins byggir ekki síst á samstöðu og fagmennsku þeirra sem starfa í skólunum í góðu samstarfi við grenndarsamfélagið.

Í nýju menntalögunum frá 2008 er lögð áhersla á velferð, öryggi og jákvæðan skólabrag í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og að allir nemendur fái notið skólavistar, með jafnrétti og lýðræði að leiðarljósi. Kennarinn er kjölfestan í menntakerfi okkar. Þegar allt kemur til alls er kennarinn, líðan hans, áhugi og fagmennska ein meginforsenda fyrir góðu skólastarfi þar sem hver nemandi skiptir máli. Góður kennari getur gert kraftaverk. Aðkoma foreldra getur skipt sköpum við að byggja upp slíkt skólasamfélag með  stuðningi við faglegt starf í skólum hvort sem er um menntun barna eða félagsstarf. Foreldrar leggja auk þess mikið af mörkum með því að halda utan um nemendahópa með margvíslegu foreldrastarfi og er slíkt sjálfboðastarf ómetanlegt. 

Velferðarhópur er starfandi í ráðuneytinu en hann hefur fylgst náið með þróun mála á öllum skólastigum frá efnahagshruni. Hópurinn hafði umsjón með sérstakri málstofu um velferð í skólum  á menntaþinginu sem haldið var 5. mars sl.  Rauði þráðurinn í umræðum um velferð á menntaþinginu var að heilt samfélag þurfi til að ala upp barn  og að samvinna allra aðila sem byggist á gagnkvæmum samskiptum og gagnkvæmri virðingu sé lykillinn að árangri. Mikill samhljómur var um mikilvægi þess að hlúa að starfsanda í skólum, viðhalda vinnugleði og virkja foreldra betur til samstarfs við skóla á öllum skólastigum, þar sem foreldrar væru víða vannýtt auðlind í skólastarfi. Einnig kom fram skýr ósk um að skólar yrðu í ríkari mæli mannlífstorg eða hjartað í samfélaginu. Skýrsla um niðurstöður menntaþingsins er aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins, http://www.menntamalaraduneyti.is/menntamal/radstefnur/nr/5534

Starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum hefur gefið út skýrslu með 30 tillögum um samhæfðar aðgerðir gegn einelti. Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að styðja sérstaklega við aðgerðirnar með því að veita níu milljónir kr. af ráðstöfunarfé sínu og stofna verkefnisstjórn til að fylgja málinu eftir og verður hún skipuð á næstunni. Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að sérstakur dagur verði árlega helgaður baráttu gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Meginmarkmiðið með slíkum degi er að skapa umræður í samfélaginu um mikilvægi þess að móta samfélag þar sem einelti fær ekki þrifist. Þá er einnig lagt til að komið verði á fót fagráði sem almennir vinnustaðir, skólar eða foreldrar geti leitað til í tengslum við úrlausn erfiðra eineltismála. Greinargerð starfshópsins er aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins: http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/einelti_greinargerd_24_06_2010.pdf

Ég vil að lokum nota tækifærið til að vekja athygli á tveimur nýjum reglugerðum, annars vegar um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum, http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Forsidugreinar/nr/5538 og hins vegar reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, 
http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Forsidugreinar/nr/5540. Þær hafa verið kynntar og  eru aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins. Ég tel að náðst hafi víðtæk samstaða um þessar reglugerðir sem m.a. er ætlað að standa vörð um grunnþjónustu og móta ramma um  stuðning við leik- og grunnskóla á komandi árum, í samræmi við lagaákvæði í nýjum menntalögum. Ýmsar nýjungar eru í þessum reglugerðum með það að markmiði að samræma betur stuðning við nemendur og skóla, skilgreina betur ýmsa verkferla, stuðla að samhæfingu þjónustunnar og samstarfi innan og utan skólans auk skýrari ákvæða um mat og eftirfylgni. Í ráðuneytinu er nú unnið að sambærilegri reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum og er stefnt að útgáfu hennar í vetur.

Ég vil með erindi þessu hvetja alla til að taka höndum saman um að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna á öllum skólastigum. Ég  hvet allt starfsfólk skóla til að huga að þeim tækifærum sem eru fyrir hendi til að skapa jákvæðan skólabrag í góðu samstarfi við grenndarsamfélagið. Mikilvægt er að við núverandi aðstæður í samfélaginu finni skólar fyrir stuðningi frá grenndarsamfélaginu og öllum þeim sem taka þátt í skólastarfinu.

Með kveðju

 

Katrín Jakobsdóttir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum