Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ábyrgð og aðgerðir - Niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi

Til grunnskóla og skólaskrifstofa

Meðfylgjandi er ritið Ábyrgð og aðgerðir - Niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi. Ritið kom út á vegum Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr í desember sl. Rannsóknastofnunin ákvað að allir grunnskólar landsins fengju afhent eintak af ritinu og óskaði eftir samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneyti við að hafa milligöngu um dreifingu þess og var það auðsótt mál.

Stofnunin hafði forgöngu um þverfræðilega rannsókn á einelti meðal barna á Íslandi í samstarfi við félagsráðgjafadeild, lagadeild og menntavísindasvið Háskóla Íslands. Grunnurinn að rannsókninni voru þrjár meistararitgerðir, sem voru síðan samþættar í eina sameiginlega lokaskýrslu. Í ritinu er að finna fræðilegt yfirlit og greinargerð um nokkrar aðferðir sem notaðar hafa verið hér á landi sem og erlendis til að vinna gegn einelti.
Einnig eru teknar saman helstu niðurstöður rannsóknarinnar auk tillagna til úrbóta á ýmsum sviðum. Loks er í ritinu að finna útdrætti úr meistararitgerðunum þremur sem fjalla um einelti á þverfaglegum grundvelli.

Mikil umræða hefur verið á undanförnum árum um einelti og alvarleiki þess hefur verið viðurkenndur af framangreindum fræðasviðum. Þrátt fyrir þetta er einelti eigi að síður raunverulegt vandamál í íslensku samfélagi. Þess er vænst að ritið Ábyrgð og aðgerðir geti nýst skólum við stefnumótun innan skólanna í tengslum við innleiðingu aðalnámskrár
grunnskóla, ekki síst vegna grunnþáttarins velferð og heilbrigði. Einnig er þess vænst að rítið nýtist  við innleiðingu nýlegrar reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila
skólasamfélagsins í grunnskólum en afar mikilvægt er að vel takist til með innleiðingu reglugerðarinnar, þar sem m.a. eru ákvæði um vinnubrögð og ábyrgð skóla í eineltismálum.

Ráðuneytið fagnar útgáfu þessa rits og lítur svo á að það sé gagnlegt öllum sem vinna að baráttunni gegn einelti í samfélaginu og lýsir ánægju með ákvörðun Rannsóknastofnunar Ármans Snævarr að gefa ritið til grunnskóla landsins.







 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum