Forsíðugreinar
Pallbord

Ársfundur Kennarasambands Íslands

30.3.2017

Ársfundur Kennarasambands Íslands var haldinn 29. mars síðastliðinn undir yfirskriftinni  „Fagleg forysta kennara og skólastjórnenda.“ Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp á ársfundinum og sat í pallborði um nýliðun kennarastéttarinnar. 

Í ávarpi sínu kom ráðherra víða við. Hann notaði tækifærið og þakkaði Kennarasambandinu sinn hlut í undirbúningi og framkvæmd úttektar um menntun án aðgreiningar á Íslandi og væntir áfram góðrar samvinnu áfram um úrvinnslu skýrslunnar, mat á niðurstöðum og þær aðgerðir til úrbóta sem ráðist verður í. Á næstunni verði skipaður stýrihópur fyrir þessa eftirfylgni og er gert ráð fyrir að aðgerðaáætlun liggi fyrir í drögum í sumar.

Þá ræddi ráðherra samræmd könnunarpróf og sagði þau komin til að vera. Hann hefði ákveðið að kalla saman fulltrúa alla helstu aðila skólastarfs í grunnskólum til að fara yfir framkvæmd samræmdu könnunarprófanna en ekki væru uppi neinar fyrirætlanir af hálfu ráðuneytisins um að leggja niður eða breyta tilgangi þeirra.

KThJ-2

Verið væri að þróa prófin svo þau þjóni betur hlutverki sínu og mæta þannig gagnrýni á innihald, form og framkvæmd þeirra. Stóra spurningin væri sú hvernig hægt væri að nýta þessi gögn til að efla skólastarf og styðja við nám nemenda.

Ráðherra vék máli sínu að menntun og starfsþróun kennara og benti á að ráðuneytið hafi nú um árabil unnið í samstarfi við Kennarasambandið, Samtök sveitarfélaga og háskólana, sem mennta kennara, að því skilgreina og skýra betur faglegan og fjárhagslegan grundvöll starfsmenntunar kennara, grunnmenntunar og framhaldsnáms.

Fagráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda lét ráðherra í té ítarlega skýrslu og tillögur í mars 2016. Þar var kynnt ný framtíðarsýn um starfsþróun kennara  og á grundvelli þeirrar skýrslu skipaði ráðherra sl. haust 20 manna samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda til að fylgja eftir tillögum fagráðsins.

Ljóst væri að verkefni samstarfsráðsins er mikilvægt og starf þess gæti skipt sköpum um þróun menntakerfisins.  Það væri því niðurstaða hans að málefnið væri brýnt og skýrsla fagráðsins frá 2016 væri góður grunnur að stefnumörkun um kennaramenntun og starfsþróun kennara.

Hann muni því styðja fjárhagslega og faglega við verkefni sem samstarfsráðið þarf að ráðast í á næstu misserum, skv. fyrirliggjandi aðgerðaráætlun, en lagði jafnframt áherslu á að framlög allra hagsmunaaðila væru ekki síður mikilvæg til að tryggja sem best framgang verkefnisins.

Nálgast má ávarp ráðherra í heild sinni hér .

 

Í pallborði voru, auk ráðherra; Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og  Þórður Á. Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands.

 

 

Til baka Senda grein