Forsíðugreinar

Framtíðarstarfið hlaut Orðsporið 2017

6.2.2017

Forseti Íslands afhenti hvatningarverðlaunin Orðsporið 2017 við hátíðlega athöfn í leikskólanum Hofi við Gullteig þann 6. febrúar. Orðsporið kom að þessu sinni í hlut Framtíðastarfsinsátaksverkefnis um eflingu leikskólastigsins

Framtíðarstarfinu standa Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Samband íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Í fréttatilkynningu frá Samstarfshópi um Dag leikskólans segir: Orðsporið er veitt á Degi leikskólans en haldið var upp á hann í tíunda sinn í ár. Sjötti febrúar er merkilegur dagur í íslenskri leikskólasögu því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt eru þeim sem þykir hafa skarað fram úr eða unnið ötullega í þágu leikskólastarfs hér á landi.

Fulltrúar þessara skóla og stofnana veittu Orðsporinu viðtöku:

Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis, Jóhanna Einarsdóttir, deildarforseti Menntavísindasviðs HÍ, Bragi Guðmundsson, formaður Kennaradeildar HA, Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Umsögn valnefndar um Orðsporið 2017

Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað fram úr í að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna. Orðsporið 2017 hlýtur Framtíðarstarfið – átaksverkefni um eflingu leikskólastigsins.

Átaksverkefninu Framtíðarstarfið var hleypt af stokkunum í apríl 2014 og endurtekið vorið 2015 og 2016. Að átakinu standa mennta- og menningarmálaráðuneytið, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, , Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla.

 Markmið átaksins er að efla jákvæða ímynd leikskólans, hækka menntunarstig starfsmanna leikskóla og fjölga þeim sem leggja fyrir sig leikskólakennarafræði. Í tengslum við verkefnið var ný vefsíða var sett í loftið þar sem fjallað er um námsmöguleika sem eru í boði fyrir þá sem vilja verða leikskólakennarar og þá skóla sem bjóða upp á leikskólakennaranám. Þá er starfi leikskólakennara gerð góð skil á síðunni.

 Að mati valnefndar um Orðsporið 2017  hafa samstarfsaðilar um átaksverkefnið Framtíðarstarfið unnið ötullega að málefnum leikskólans og og kynnt það sem vænlegt framtíðarstarf. Þá er vefsíða Framtíðarstarfsins afar vel heppnuð, framsetning er lífleg en um leið afar fræðandi. Þá eru myndskeið þar sem leikskólakennarar og leikskólakennaranemar segja frá námi og starfi afar vönduð og áhugaverð. Er ánægjulegt að sjá að fjöldatölur í háskólana sýna að aðsókn í námið hefur aukist á því tímabili sem átakið hefur staðið. En betur má ef duga skal og ljóst  að um langhlaup er að ræða. Nú leggja 253 nemendur stund á leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þá má geta þess að Félag leikskólakennara hefur á árunum 2015 og 2016 styrkt 85 einstaklinga sem hófu nám sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.

 Viðvarandi skortur hefur verið á leikskólakennurum mörg undanfarin ár og enn er langt í land með að uppfylla lög um menntun og ráðningu kennara en þau gera ráð fyrir að 2/3 hlutar stöðugilda að lágmarki skuli teljast til leikskólakennara. Auk þess fer meðalaldur stéttarinnar hækkandi.

 Allir geta verið sammála um að mikilvægt er að efla leikskólastigið enda hagsmunamál að hafa vel menntaða starfsmenn í leikskólum landsins. Það mun án efa skila sér í auknum gæðum í skólastarfinu og fagmennsku og um leið styrkja leikskóla sem áhugaverða vinnustaði. Því er átaksverkefni á borð við Framtíðarstarfið afar mikilvægt og til þess fallið að efla orðspor leikskólakennarastarfsins og breyta afstöðu ungs fólks til starfsins.

Fyrri Orðsporshafar eru:

2016 Ásmundur Örnólfsson aðstoðarleikskólastjóri

Fyrir að verða alla tíð framúrskarandi fyrirmynd fyrir karla í leikskólakennarastarfi og leggja sitt af mörkum til að efla orðspor leikskólakennarastarfsins.

 2015 Kópavogsbær og sveitarfélagið Ölfus

Fyrir að sýna sveigjanleika þannig að starfsfólk leikskóla geti sinnt námi með vinnu; aðstoða við námskostnað og veita launuð námsleyfi.

 2014 Okkar mál – þróunarverkefni

Verkefni sem fól í sér aukið samstarf skóla og stofnana í Fellahverfi.

 2013 Súðavíkurhreppur / Kristín Dýrfjörð og Margrét Pála Ólafsdóttir

Súðavíkurhreppur fyrir að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla. Kristín og Margrét Pála fyrir að vekja umræðu á málefnum leikskólans.

 

 

 

 

Til baka Senda grein