Forsíðugreinar

Innleiðing á nýjum námsmatskvarða við lok grunnskóla

13.2.2017

Vakin er athygli á að frá og með vori 2017 skulu allir grunnskólar hafa lokið innleiðingu á nýjum námsmatskvarða A-D við lok 10. bekkjar grunnskóla.

Ráðuneytið hefur með bréfi til grunnskóla, sveitarstjórna og skólaskrifstofa áréttað að frá og með vori 2017 skulu allir grunnskólar með 10. bekk hafa lokið innleiðingu á nýjum námsmatskvarða A-D við lok 10. bekkjar grunnskóla. Þá er jafnframt bent á að skólar skulu ekki nota vörpun við einkunnagjöf, þ.e. umreikna einkunnir í tölur yfir í bókstafina A-D. Grunnskólar skulu í öllum tilvikum styðjast við hæfni- og matsviðmið aðalnámskrár grunnskóla frá 2011 og 2013 við einkunnagjöf nemenda í 10. bekk.

Nýr námsmatskvarði var notaður í fyrsta skipti við útskrift nemenda úr grunnskóla vorið 2016. Ráðuneytið veitti grunnskólum undanþáguheimild til og með vori 2017 frá því að birta vitnisburð í bókstöfum A-D í þeim tilvikum þegar nemendur stunduðu ekki nám á tilteknum námssviðum skólaárið 2015/2016.  Var þetta gert til að veita grunnskólum enn frekara svigrúm til að innleiða nýjan námsmatskvarða. Þessi undanþáguheimild fellur úr því úr gildi frá og með vori 2017 og mun samræmt vitnisburðarskírteini sem Menntamálastofnun gefur út taka mið af því.

Grunnskólum er bent á að snúa sér til Menntamálastofnunar hafi þeir spurningar sem lúta að nýjum námsmatskvarða og vitnisburðarskírteini við lok grunnskóla. Á vef Menntamálastofnunar eru einnig aðgengilegar á ýmsar upplýsingar sem nýtast grunnskólum við innleiðinguna og mun bæta á næstunni við frekari leiðbeiningum.

Það er mat ráðuneytisins að vel hafi tekist til með framkvæmdina síðastliðið vor, bæði gagnvart útskrift nemanda úr grunnskólum og innritun í framhaldsskóla og væntir ráðuneytið góðrar samvinnu við grunnskóla og sveitarfélög um lok innleiðingar á nýjum námsmatskvarða í bókstöfum.

Til baka Senda grein