Hoppa yfir valmynd
6. september 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nám er vinnandi vegur

Helstu atriði:

Átakið hefur gengið samkvæmt áætlun.

Yfir þúsund atvinnuleitendur hefja nám í skólum landsins í haust.

Framhaldsskólanemendum fjölgar um rúmlega 1.500 á milli ára.

Helstu atriði:

  • Átakið hefur gengið samkvæmt áætlun.
  • Yfir þúsund atvinnuleitendur hefja nám í skólum landsins í haust.
  • Framhaldsskólanemendum fjölgar um rúmlega 1.500 á milli ára.

Samningur um framkvæmd átaksins „Nám er vinnandi vegur“ milli stjórnvalda, framhaldsskóla og háskóla var undirritaður í dag. Viðstaddir undirritun samningsins voru mennta- og menningarmálaráðherra, velferðarráðherra, forsvarsmenn skóla og aðila vinnumarkaðarins. Fyrsta hluta átaksins, sem fól í sér eftirfarandi bráðaaðgerðir, er nú lokið samkvæm áætlun:

  1. Annars vegar að tryggja öllum yngri en 25 ára sem eftir leita og uppfylla inntökuskilyrði nám við hæfi í framhaldsskólum nú í haust.
    Alls hafa 27.715 nemendur verið innritaðir til náms við framhaldsskóla haustið 2011 sem er fjölgun um 1.534 á milli ára. Af þeim eru 1.141 sem hefur verið innritaður á grundvelli átaksins.
  2. Hins vegar að skapa ný námstækifæri fyrir allt að 1.000 atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu tvö ár þar á eftir í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og í framhaldsfræðslu.
    Heildarfjöldi atvinnuleitenda sem hefja nám nú í haust er 1.042.Vinnumálastofnun (VMST) hefur gert 960 námssamninga á grundvelli átaksins við atvinnuleitendur. Að auki eru 82 atvinnuleitendur til viðbótar að hefja nám án námssamnings.

 

Af atvinnuleitendum sem gert hafa námssamninga eru 53% konur en 47% karlar, 718 eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en 242 á landsbyggðinni, þar af 103 á Suðurnesjum.

Alls hefja 527 atvinnuleitendur nám við framhaldsskóla, flestir við Tækniskólann eða 117. 60 hefja nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, 51 við Iðnskólann í Hafnarfirði, 50 við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, 47 við Fjölbrautaskólann í Ármúla, 47 við Menntaskólann í Kópavogi og 40 við Borgarholtsskóla.

320 atvinnuleitendur hefja háskólanám, 259 grunnám og 61 framhaldsnám. 113 hefja nám í frumgreinadeildum háskólanna og Keilis. Flestir, eða 184, hefja nám við HÍ, 103 við HR, 34 við HA og 22 á Bifröst. Í frumgreinanámi hefja flestir nám við Keili eða 39.

Atvinnuleitendur sem hefja nám í haust halda bótum sínum til áramóta. Þá mun þeim sem stunda lánshæft nám Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) standa til boða framfærslulán frá sjóðnum. Öðrum verður tryggð framfærsla með sérstöku úrræði sem nú er unnið að því að útfæra og fjármagnað verður af Atvinnuleysistryggingasjóði.

Átakið byggir á tillögum samráðshóps ráðuneyta, allra þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og hreyfinga námsmanna sem forsætisráðherra skipaði og er liður í yfirlýsingu kjarasamninga sem undirritaður voru í maí síðastliðnum.

Sérstakur aðgerðahópur stýrir framkvæmd verkefnisins. Hópnum er stýrt af fulltrúum velferðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Auk þeirra eru fulltrúar fjármálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar og aðila vinnumarkaðarins í hópnum.

  • Frekari upplýsingar veita formenn hópsins, þeir Runólfur Ágústsson (695-9999) og Elías Jón Guðjónsson (694-1480).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum