Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Málþing um aðalnámskrá leikskóla

14. nóvember 2011, Hótel KEA

Ágætu málþingsgestir

Ég býð ykkur velkomin á þetta þing sem ráðuneytið ásamt Félagi leikskólakennara, Félagi stjórnenda leikskóla og Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur skipulagt.  
Það er ánægjulegt að sjá hversu margir eru hér mættir til leiks en rétt er að vekja athygli á því að málþingið verður tekið upp og niðurstöður settar á vefinn þannig að sem flestir geti nýtt sér afrakstur þingsins. Við höfum líka fengið ábendingar um að hugsanlega megi halda fleiri þing og munum meta það ef áhugi reynist mikill.
Ný aðalnámskrá leikskóla hefur nú litið dagsins ljós. Hún er afrakstur samstarfs mennta- og menningarmálaráðuneytis, sveitarfélaga, kennarasamtaka, sérfræðinga á sviði leikskólamála og annarra hagsmunaaðila sem hófst í kjölfar setningar laga um leikskóla um mitt ár 2008. Vinnuna leiddi Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Mjög víðtækt samráð var haft við gerð námskrárinnar, kynningar víða um land og drög að námskrá sett á vefinn til að sem flestum gæfist tækifæri til að hafa áhrif á mótun hennar. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti komu að gerð aðalnámskrárinnar.

Aðalnámskrá leikskóla er gerð á grundvelli 13. gr. laga um leikskóla. Efnislega byggist hún á markmiðsgrein laganna og er ætlað að vera leiðarvísir fyrir leikskólastarf. Námskráin er margt. Hún er safn markmiða og krafna sem eiga við um öll börn, stjórnendur og starfsfólk leikskóla, fræðsluyfirvöld í sveitarfélögum og rekstraraðila.  Hún er jafnframt viðmið fyrir mat á leikskólum og leikskólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsgagnagerð og kennaramenntun á sviði leikskólans, grundvöllur skólanámskrárgerðar og innra mats skóla og stefnumörkunar sveitarfélaga. Aðalnámskráin veitir einnig foreldrum upplýsingar svo að þeir geti fylgst með velferð og líðan barna sinna, starfsháttum skóla og árangri leikskólastarfs og leiðarvísir um samstarf heimila og skóla og þátttöku foreldra í leikskólastarfi. Og námskráin er tæki fyrir okkur til að eiga samtal um framþróun skólastarfs, hún er umræðugrundvöllur faglegrar umræðu og skiptir sem slík máli, því annars væri hún einungis orð á blaði.
Birtingarform aðalnámskrárinnar er með nýjum hætti nú þar sem mótaður hefur verið í fyrsta sinn sameiginlegur inngangur fyrir þrjú fyrstu skólastigin. Í sameiginlega hlutanum er fjallað um stefnumið menntakerfisins, hlutverk skóla, almenna menntun, grunnþætti menntunar — sem eru læsi, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun, sjálfbærni og heilbrigði og velferð — hæfni, námshæfni, fagmennsku kennara og mat og eftirlit. Hér á eftir mun Sigurjón Mýrdal deildarstjóri í ráðuneytinu kynna betur kjarnann í þeirri útfærslu. Á eftir honum verður síðan fjallað um sérkenni aðalnámskrár leikskóla, grunnþætti almennrar menntunar í leikskólum og helstu nýjungar. Ég ætla því ekki í mínu máli hér að tala meira um inntak námskrárinnar.
Allt frá gildistöku menntalaganna svokölluðu árið 2008 hefur ráðuneytið unnið að innleiðingu þeirra menntastefnu sem þar var mörkuð. Undirstaða þeirrar vinnu er ritun og útgáfa reglugerða og útgáfa nýrra aðalnámskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Á sama tíma hefur samfélagið þurft að kljást við afleiðingar bankahrunsins og mikil orka farið í það að standa vörð um lögbundna grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga. Lögð hefur verið áhersla á að standa vörð um mennta- og velferðarmál en á sama tíma hafa sveitarfélög og ríki þurft að hagræða verulega í skólamálum. Um leið má segja að samfélagið hafi lagt traust sitt á skólana til að hlúa að börnunum okkar á umbrotatímum. Kröfurnar hafa kannski aldrei verið meiri en það er óhætt að segja að almennt hafi skólarnir og starfsfólk þeirra staðið undir þessu mikla trausti.
Nýrri aðalnámskrá leikskóla verður fylgt eftir á ýmsan hátt. Tvö sérstök málþing — að minnsta kosti — það fyrra er hér í dag fyrir starfsfólk leikskóla, sveitarstjórnarfólk, skólanefndir, foreldra og aðra hagsmunaaðila leikskólamála, og það síðara verður að viku liðinni á Akureyri. Einnig er unnið að útgáfu þemahefta um grunnþætti í menntun og fleiri þáttum, t.d. útfærslu á mati og eftirliti, þróunarstarfi og endurmenntun auk nýsköpunar í námsgagnagerð.
Mig langar í þessu samhengi að vekja athygli á að ráðuneytið auglýsti í síðustu viku eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði námsgagna.  Hlutverk þess sjóðs er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Markmiðið er að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir barna, ungmenna og skóla. Til að styðja við innleiðingu aðalnámskráarinnar ákvað ráðuneytið að láta forgangs njóta námsefni sem stuðlar að því að efla starf í anda grunnþátta menntunar fyrir öll skólastigin í samræmi við aðalnámskrá. Það námsefni sem hlýtur styrk verður gefið út með rafrænum hætti og gert aðgengilegt á netinu eftir því sem við á.

Ég vil nota þetta tækifæri til að geta þess að gert hefur verið samkomulag milli mennta- og menningarmálaráðuneytis, Kennarasambands Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga og þeirra háskóla sem sinna endurmenntun um samstarfsvettvang um endurmenntun kennara. Einnig hefur ráðuneytið gert samstarfssamning við menntavísindasvið Háskóla Íslands um símenntun kennara vegna innleiðingar nýrra laga og aðalnámskrár. Miklar væntingar eru til þess að hægt verði að samhæfa framboð á nauðsynlegri sí- og endurmenntun kennara í samræmi við nýjar aðalnámskrár.

Efling leikskólans
Undanfarna mánuði hefur starfað hópur á vegum samráðsnefndar leik- og grunnskóla við að móta tillögur til að efla leikskólastigið enn frekar. Margt hefur áunnist í málefnum leikskólans undanfarin ár og má m.a. nefna hina nýju löggjöf um leikskóla og nýjar reglugerðir sem settar hafa verið við lögin, aðalnámskrá leikskóla, lögverndun til handa leikskólakennurum, Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur ár hvert, aðgengi leikskólans að þróunarsjóði námsgagna og stofnun Sprotasjóðs og áherslu á samstarf leik- og grunnskóla og samfellu í námi.
Að mörgu öðru þarf þó að huga. Hagsmunir, velferð og öryggi barna og ungmenna er kjarninn í löggjöf um leikskóla og grunnskóla. Það er sameiginlegt verkefni okkar að gæta þess að börn fái notið bernsku sinnar meðan á skólagöngu þeirra stendur.  Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur verið unnið að því með fjölbreyttum hætti að fylgja eftir áherslum í  lögum um réttindi, öryggi og velferð barna og ungmenna. Ráðuneytið hefur tekið virkan þátt í starfsemi velferðarvaktarinnar, allt frá efnahagshruni, og sérstakur hópur er starfandi innan ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að fylgjast með þróun mála er varða börn. Sérstaklega hefur verið unnið að áætlunum um heilsueflandi grunn- og framhaldsskóla, aðgerðum gegn einelti á landsvísu í samstarfi nokkurra ráðuneyta og útgáfu rafrænna handbóka vegna slysavarna og öryggismála á leik- og grunnskólastigi. Í því sambandi vil ég vekja athygli á því að verkefnisstjórn um aðgerðir gegn einelti hefur ákveðið að  8. nóvember nk. verði  Dagur gegn einelti. Í tilefni dagsins verður undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti og vil ég nota tækifærið til að hvetja ykkur öll til að leggja baráttunni gegn einelti lið, en einelti á aldrei að líðast, hvorki meðal barna né starfsfólks á vinnustöðum. Fjölmargar rannsóknir hafa verið unnar undanfarin ár til að freista þess að greina þætti sem tengjast líðan barna. Slík greining er nauðsynleg þar sem góð líðan barna og ungmenna er af flestum talin vera grundvöllur farsællar skólagöngu og ákjósanlegt veganesti inn í framtíðina, fyrir utan að teljast sjálfsögð mannréttindi eins og fram kemur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu. Mig langar að lokum að nefna að senn líður að útgáfu rafrænnar handbókar um öryggis- og slysavarnarmál í leik- og grunnskólum sem ráðuneytið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu unnið að.  Mikilvægt er að hún verði vel kynnt og innleidd á árangursríkan hátt.

Þegar við ræðum um eflingu leikskólastigsins má ekki gleyma því að um langt árabil höfum við búið við viðvarandi skort á leikskólakennurum í leikskólum þó að vissulega sé staðan misjöfn eftir sveitarfélögum. Lög um menntun og ráðningu kennara við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla kveða á um að a.m.k. 2/3 stöðugilda þeirra sem starfa við menntun og uppeldi skulu hafa leikskólakennaramenntun.  Á landsvísu er hlutfallið um 32% og er því langt í land að uppfylla lögin hvað það varðar. Þá höfum við upplýsingar um að umsóknum um leikskólakennaranám hafi fækkað mikið að undanförnu og er það mikið áhyggjuefni. Við þessu verðum við að bregðast og bind ég vonir við að helstu hagsmunaaðilar taki þar höndum saman þegar fyrir liggja niðurstöður þess hóps sem ég nefndi áðan.
Innan tíðar mun ég á grundvelli laga um leikskóla leggja fram fyrir Alþingi skýrslu um skólahald í leikskólum. Þetta verður í fyrsta skiptið sem slíkt er gert. Skýrslan tekur mið af þremur síðustu skólaárum og hefur að geyma margvíslegar  upplýsingar um leikskólastarf, s.s. um fjölda barna í leikskólum og lengd dvalartíma, um fjölda, stærð og dreifingu skóla, um starfsfólk og menntun þeirra. Skýrslan fjallar ekki um rekstrartengdar upplýsingar enda er rekstur leikskóla á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga og þar á bæ eru árlega gefin  út myndarleg upplýsingarrit um leik- og grunnskóla.
Ég hef áhuga á því að beita mér fyrir því að skýrslan um skólahald í leikskólum hljóti markvissa umræðu á þingi og í nefndum og tel að slíkt sé í anda breyttra áherslna í vinnubrögðum af hálfu ríkisins enda mikilvægt að málefni leikskólanna séu rædd á þeim vettvangi líka.

Læsi
Mig langar aðeins að koma inn á læsi og lestrarnám en læsi er skilgreint sem eitt af námssviðum leikskólans í nýrri aðalnámskrá. Síðastliðið vor lét ráðuneytið framkvæmda úttekt á tíu leikskólum til að afla upplýsinga um áhugavert starf tengt málumhverfi leikskólabarna. Leikskólarnir tíu voru valdir með hliðsjón af ábendingum frá sveitarfélögum. Fram kom að mikið og öflugt þróunarstarf fer fram í öllum leikskólunum tíu á sviði málörvunar og lestrarnáms og er mikill áhugi hjá stjórnendum og starfsfólki á viðfangsefninu. Í flestum skólanna er markviss málörvun mjög tengd lestrarnámi og felst það í þjálfun hljóðkerfisvitundar og eflingu orðaforða enda benda rannsóknir til að þessi atriði hafa forspárgildi um gengi í lestrarnámi. Samkvæmt úttektinni mætti hins vegar almenn málörvun í dagsins önn vera markvissari í sumum tilfellum. Umhverfi skóla styður misjafnlega vel við mál og læsi. Í flestum leikskólanna er það mjög mál- og læsisörvandi en í sumum er örvunin í umhverfinu fremur lítil. Þá kom einnig fram að í þessum leikskólunum er í flestum tilfellum mjög gott samstarf við grunnskólana sem taka við börnunum að leikskólanámi loknu. Skýrslan um verkefnið inniheldur ýmsar áhugaverðar hugmyndir tengdar málumhverfi og lestrarnámi  sem vonandi nýtast sem flestum. Það eru mikil sóknarfæri fólgin í nýjum námskrám og þeirri vinnu sem þar hefur verið lögð í að skilgreina læsi. Þar skiptir máli að vera læs, ekki aðeins á texta heldur líka myndmál og umhverfi sitt og að geta á grunni læsis skilið og skapað sjálfur.
Ágætu málþingsgestir

Úttektir ráðuneytisins á starfsemi leikskóla undanfarin ár sýna almennt að í leikskólum fer fram faglegt og fjölbreytt starf. Markmið okkar allra hlýtur að vera að halda því starfi áfram og bæta í þegar þess er kostur.
Gert er ráð fyrir nokkru svigrúmi við innleiðingu aðalnámskrár leikskólans. Miðað er við að skólastarf allra leikskóla taki mið af nýju námskránni að þremur árum liðnum.  Mikilvægt er að ríki, sveitarfélög og skólar og hagsmunaaðilar stilli saman strengi við innleiðinguna með áherslu á að nýta bæði tiltæka starfskrafta og fjármagn í því skyni.
Ég vil að lokum vitna til þeirra orða sem fram koma í sameiginlegum inngangskafla aðalnámskránna þar sem segir: „Það eru gömul sannindi og ný að engin raunveruleg þróun verður í skólastarfi nema fyrir tilstuðlan kennara og skólastjórnenda. Lengi má lagfæra menntastefnu, skipulag, námsgögn og skólabyggingar en ef breytingum er ekki fylgt eftir í skólunum skila þær ekki árangri. Innleiðing nýrrar hugsunar í skólastarfi byggist á góðri samvinnu menntayfirvalda við þá sem bera hitann og þungann af skólastarfinu.“
Með þessi orð að leiðarljósi segi ég málþing þetta sett. Ég vona að aðalnámskráin hafi farsæl áhrif í þágu hagsmuna og velferðar barna, foreldra þeirra og samfélags og hvet ykkur sem hér eru að ígrunda vel efni nýju námskrárinnar og þá möguleika og þau tækifæri sem í henni felast.

Gangi ykkur vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum