Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til bókasafnalaga

Á vegum ráðuneytisins hefur um nokkurt skeið verið í vinnslu frumvarp til nýrra laga um málefni bókasafna, sem ráðherra hyggst leggja fram á yfirstandandi þingi haustið 2011.  Fyrirliggjandi drög að frumvarpi byggja á umtalsverðri vinnu sem m.a. var unnin á árunum 2003 – 2008.

Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis hefur um nokkurt skeið verið í vinnslu frumvarp til nýrra laga um málefni bókasafna, sem ráðherra hyggst leggja fram á yfirstandandi þingi haustið 2011.

 Fyrirliggjandi drög að frumvarpi byggja á umtalsverðri vinnu sem m.a. var unnin á árunum 2003 – 2008. Þáverandi menntamálaráðherra skipaði sumarið 2003 nefnd sem var falið að kanna hvort hagkvæmt væri að setja heildarlög, sem gætu tekið til allra tegunda bókasafna og skilgreina hlutverk og stöðu þeirra í safnakerfi landsins. Nefndin lauk störfum haustið 2006 og lagði fram tillögu að frumvarpi til bókasafnalaga, þar sem m.a. var fjallað sérstaklega um sameiginlegar skyldur og þarfir bókasafna ásamt nauðsynlegum sérgreinum um almenningsbókasöfn, skólabókasöfn og Blindrabókasafn Íslands.

Ný lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn voru samþykkt á liðnu vori (lög nr. 142/2011) og í kjölfarið voru fyrrgreind drög að frumvarpi til bókasafnalaga endurskoðuð til að tryggja samræmi milli þeirra. Frumvarpsdrögin eru nú lögð fram til kynningar.

Helstu nýmæli í fyrirliggjandi drögum að frumvarpi til bókasafnalaga:

  • Taldar eru upp taldar þær tegundir bókasafna, sem eru reknar fyrir opinbert fé og kveðið á um samstarf þeirra og samvinnu og að þau séu hluti af bókasafnakerfi landsins.
  • Með því að fella niður gildandi lög um almenningsbókasöfn er horfið m.a. frá því að landinu sé skipt í bókasafnsumdæmi og að í hverju umdæmi sé starfandi umdæmissafn. Þessi ákvæði gildandi laga um bókasafnsumdæmi og umdæmissöfn verða að teljast úrelt og óþörf en í staðinn er mælt fyrir um samstarf safna og hugsanlegan samrekstur þar sem slíkt þykir henta.
  • Kveðið er sérstaklega á um hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sem forystusafns í bókasafnakerfi landsins líkt og Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands eru skilgreind sem höfuðsöfn á sínum sviðum skv. safnalögum.
  • Lagt er til að stofnað verði bókasafnaráð, sem verði ráðgefandi fyrir ráðherra og stjórnvöld um málefni bókasafna og skal það m.a. vinna m.a. stefnumörkun á sviði bókasafna- og upplýsingamála (að fyrirmynd safnaráðs skv. safnalögum á sviði minja- og listasafna). Ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna verður lögð af og munu verkefni hennar flytjast til bókasafnaráðs.
  •   Lagt er til að nafni Blindrabókasafns verði breytt í Hljóðbókasafn Íslands.
  • Lagt til að stofnaður verði bókasafnasjóður og markmið hans verði að efla rannsóknir og aðstoða við frekari þróun í greininni. Úthlutun styrkja úr bókasafnasjóði verði í höndum ráðherra að fengnum umsögnum bókasafnaráðs um umsóknir.
  • Loks er í tillögunum gert ráð fyrir skýrum heimildum til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, vanskila og bóta vegna tjóns á efni sem lánað er út.

Rétt er að benda á að um er að ræða skjöl í vinnslu, sem mögulega eiga enn eftir að taka breytingum áður en þau verða lögð fram með formlegum hætti. Þeir sem hafa áhuga á að koma á framfæri ábendingum um efni frumvarpsins eða mögulegum tillögum um breytingar á efni þess eru vinsamlegast beðnir að senda ráðuneytinu tölvupóst þess efni fyrir 16. desember n.k. merkt: Drög að frumvarpi til bókasafnalaga 2011. [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum