Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit Umboðsmanns Alþingis á fyrirkomulagi innritunar nýnema í framhaldsskóla

Umboðsmaður Alþingis hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneyti álit sitt á fyrirkomulagi innritunar nýnema í framhaldsskóla sem tekið var upp vorið 2010.

Umboðsmaður Alþingis hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneyti álit sitt á fyrirkomulagi innritunar nýnema í framhaldsskóla sem tekið var upp vorið 2010. Fyrirkomulagið fólst í því að nemendum í tilteknum grunnskólum var veittur forgangur að 45% nýnemaplássa í vissum framhaldsskólum, m.a. með hliðsjón af búsetu og samgöngum. Sama fyrirkomulag var viðhaft við innritunina 2011 en hlutfallið lækkað úr 45% í 40%. Framkvæmd innritunarinnar var staðfest í samningi milli ráðuneytisins og einstakra framhaldsskóla. Það er álit umboðsmanns að ekki sé viðhlítandi stoð í lögum, nr. 92/ 2008 um framhaldsskóla fyrir þessu fyrirkomulagi við innritun nýnema. Ráðuneytið hefur talið fyrirkomulag innritunar eiga sér viðhlítandi stoð í lögum en mun nú endurskoða það í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis. Verður endurskoðað fyrirkomulag innritunar kynnt innan skamms.

Í fyrrgreindum lögum er að finna ákvæði um að öll ungmenni 16 til 18 ára skuli eiga rétt á að stunda nám við hæfi í framhaldsskóla. Í lögunum er ekki tilgreint nánar hvernig þessi réttur skuli tryggður. Það hefur því verið verkefni ráðuneytisins í samráði við framhaldsskólana að útfæra það, enda um sameiginlegt verkefni allra framhaldsskóla landsins að ræða. Hluti af þeirri útfærslu var umrædd forgangsregla. Hún byggir á því að skapa skýrari tengsl framhaldsskóla við nærumhverfi sitt en en veita um leið nemendum kost að velja sér nám í ólíkum skólum. Innritun nýnema gekk mjög vel árið 2011. Allir nýnemar fengu skólavist og rúmlega 98% í öðrum þeirra tveggja skóla er þeir sóttu um og tæp 87% í skóla er þeir völdu númer eitt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum