Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fyrsti þekkingarbrunnur um táknmál opnaður

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, opnaði þekkingarbrunn um íslenskt táknmál á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
táknmál
táknmál

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, opnaði þekkingarbrunn um íslenskt táknmál á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra þriðjudaginn 31. janúar. Ráðherra lagði við þetta tækifæri sitt af mörkum í þekkingarbrunninn með því að gera tákn um menntun og menningu og setti í hann.  Þekkingarbrunnurinn, SignWiki, er unninn með frjálsum hugbúnaði í anda hugmyndafræði um opið aðgengi að menntaefni og með því markmiði að táknmálssamfélagið geti tekið þátt í mótun hans. 

Þekkingarbrunnurinn um íslenskt táknmál er verkefni sem er unnið til þess að fylgja eftir nýjum lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.  Með honum verður málið nú í fyrsta sinn gert aðgengilegt öllum í gegnum vef, snjallsíma og spjaldtölvur.  Hægt er að fletta upp merkingu tákna og horfa á myndbönd á táknmáli, taka örnámskeið í táknmáli, lesa greinar um táknmál og taka próf svo eitthvað sé nefnt.  

Þekkingarbrunnur af þessu tagi er að því er best vitað einstakur í heiminum og hefur nú þegar vakið athygli út fyrir Ísland.  Samstarfsstofnun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra í Noregi hefur til dæmis óskað eftir samstarfi við Samskiptamiðstöð um að vinna sambærilegt verkefni fyrir norskt táknmál.  Þá er fyrirhuguð samvinna um notkun kerfisins við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra í Namibíu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum