Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þjónusta til framtíðar

Skýrsla um skipan þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda einstaklinga afhent mennta- og menningarmálaráðherra og velferðarráðherra.

Skýrsla um skipan þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda
Skýrsla um skipan þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda

Framkvæmdanefnd í málefnum  heyrnarlausra og heyrnarskertra hóf störf 25. febrúar 2010. Hlutverk nefndarinnar var samkvæmt skipunarbréfi m.a. að kortleggja stöðu framangreinds hóps, greina fyrirliggjandi gögn og stefnumótandi álit um stöðu táknmálsins og koma með tillögur að framtíðarfyrirkomulagi í samhæfðri þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga í landinu og leggja til nauðsynlegar lagabreytingar.

Samkvæmt fyrstu starfsáætlun átti nefndin að ljúka störfum á miðju ári 2010 en sá tími reyndist of stuttur til að gera verkefninu þau skil sem væntingar stóðu til, auk þess sem verkefnið reyndist afar flókið og tíma tók að samþætta þau margvíslegu sjónarmið um hvernig framtíðarfyrirkomulagi og innihaldi þjónustunnar yrði best fyrir komið. Breytingar voru gerðar á verklýsingu framkvæmdanefndarinnar í júní 2011 en þá komu fulltrúar daufblindra og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands til samstarfs við nefndina. Á síðari stigum var einnig ákveðið að nefndin gerði ekki tillögur um fyrirkomulag ábyrgðar og skipan þjónustu eða fjármögnun tillagna til framtíðar heldur myndi gera skýrslu með kortlagningu og þarfagreiningu á þjónustu fyrir markhópana. Skýrslan liggur nú fyrir og hefur verið afhent ráðherrum mennta- og menningarmála og velferðarmála. Hún verður birt innan tíðar.

Starfshópur um skipulag og framkvæmd þjónustu milli ríkis og sveitarfélaga starfaði samhliða framkvæmdanefndinni lengst af og hafði gert fyrstu drög að niðurstöðum þó þau væru ekki lögð fram. Í þeim hópi sátu fulltrúar ráðuneyta mennta- og velferðarmála, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Félags heyrnarlausra og Heyrnarhjálpar, félagi heyrnarskertra. Þau drög sem nú liggja fyrir eftir vinnu hópsins eru mikilvægur áfangi vegna næstu skrefa í skipan þjónustu við markhópana.

Fram hefur komið áhugi ráðherra mennta- og menningarmála og velferðarmála á að unnið verði áfram með tillögur starfshópsins og þær nýttar til að skilgreina markmið, gera áætlanir og móta nýtt skipulag þjónustunnar.

Í niðurstöðum skýrslunnar er lagt til að sett verði á fót verkefnisstjórn með fulltrúum ráðuneytanna tveggja, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi heyrnarlausra, Heyrnarhjálp og Fjólu, félags fólks með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu. Verkefnisstjórnin fengi það hlutverk að skilgreina markmið og leiðir, greina kostnað og móta skipulag til skemmri og lengri tíma.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum