Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Börnum og starfsfólki í leikskólum fjölgar en leikskólum fækkar

Hagstofan hefur birt upplýsingar um starfsmannaveltu og stöðu mála á leikskólum

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar hefur börnum og starfsfólki í leikskólum fjölgað en leikskólum hefur fækkað m.a. vegna sameininga skóla.

Í desember 2011 störfuðu 5.515 manns í 4.798 stöðugildum við leikskóla á Íslandi. Það er fjölgun um 27 starfsmenn frá fyrra ári (0,5%) og stöðugildum fjölgaði einnig um 27 (0,6%). Leikskólabörnum hefur fjölgað um 198 á sama tíma, eða um 1,0%. Frá desember 2009 hefur leikskólabörnum fjölgað um 443 en starfsmönnum fækkað um 124.

Körlum fjölgar en konum fækkar við uppeldi og menntun leikskólabarna
Athygli vekur að frá desember 2009 til sama tíma 2011 fjölgar körlum í starfi á leikskólum um 64, en konum fækkar um 188. Einkum fjölgar körlum sem starfa við uppeldi og menntun barnanna. Þeir voru 197 árið 2009 en 253 árið 2011, og hafði því fjölgað um 28,4% á tveimur árum. Á þessu tveggja ára tímabili fækkaði konum í sömu störfum um 154; 3,1%.

Aukin starfsmannavelta frá 2010
Brottfall starfsmanna á milli áranna 2010 og 2011 var 25,2% og hefur aukist um 0,8 prósentustig frá fyrra ári. Hlutfallslega er mest brottfall meðal starfsmanna við ræstingar, 34,7%, en minnst meðal aðstoðarleikskólastjóra (7,3%) og leikskólastjóra (13,9%).

Sé litið á menntun starfsmanna fjölgar leikskólakennurum um 115 (6,7%) og starfsfólki með aðra uppeldismenntun fjölgar um 245 (38,2%) frá desember 2010. Munar mest um að nú eru leikskólaliðar flokkaðir með starfsfólki sem lokið hefur annarri uppeldismenntun en leikskólakennaraprófi í stað þess að teljast með ófaglærðum starfsmönnum. Ófaglærðum starfsmönnum við uppeldi og menntun fækkar um 333 (12,7%) en fjöldi starfsmanna sem sinnir öðrum störfum, s.s. matreiðslu og þrifum, er óbreyttur. Það skal tekið fram að hér er um tvær punktmælingar að ræða. Því koma starfsmenn sem hófu störf árið 2011 og hættu störfum fyrstu 11 mánuði ársins ekki fram í tölunum.

Leikskólabörnum fjölgar en leikskólum fækkar

Í desember 2011 sótti 19.159 barn leikskóla á Íslandi og hafa þau aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 198 frá desember 2010, eða um 1,0%. Ekki hefur orðið breyting á hlutfalli barna á aldrinum 1-5 ára sem sækja leikskóla frá fyrra ári, það er um 82%. Börnum á öðru aldursári hefur þó fækkað úr 35% í 29% af aldursárgangi. Einnig má greina breytingar á viðverutíma barnanna á þann hátt að hlutfallslega fleiri börn dvelja 7 tíma og lengur á dag í leikskóla en fyrir ári síðan.

Leikskólum fækkar og aukinn samrekstur leikskóla og grunnskóla
Í desember voru starfandi 265 leikskólar á Íslandi og hafði þeim fækkað um 12 frá árinu áður. Breytingar á fjölda leikskóla hafa aðallega verið í Reykjavík en þar fækkaði leikskólum um 12 vegna sameininga.

Sjá báðar fréttirnar í heild:

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum