Hoppa yfir valmynd
8. maí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tölvur og íslenskt mál í grunnskólum

Niðurstöður könnunar um tölvuumhverfi og íslenskt mál

Að beiðni nefndar um íslensku í tölvuheiminum lét mennta- og menningarmálaráðuneyti gera könnun meðal allra grunnskóla á landinu um tölvur og íslenskt mál. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um tölvuumhverfi og íslenskt mál svo fylgja megi eftir þeim áherslum sem settar eru fram í íslenskri málstefnu. Ráðuneytið fól Capacent Gallup framkvæmd könnunarinnar og var spurningalisti sendur öllum grunnskólum landsins á tímabilinu febrúar til mars 2012.

Spurt var hvort það væri opinber stefna skólans að viðmót á tölvum, sem nemendur nota, sé á íslensku. Skólastjórar 100 skóla sögðu það vera stefnu síns skóla en 70 svöruðu neitandi. Þeir sem svöruðu neitandi voru beðnir að gera grein fyrir því hvers vegna það væri ekki opinber stefna skólans og komu fram mismunandi ástæður fyrir því svo sem tæknilegar ástæður, að það hafi ekki verið rætt, ekki hafi þótt ástæða til þess og að það væri stefna sem þó ekki væri opinber.  

Þá var spurt hvort notendahugbúnaður væri valinn með tilliti til þess að hann væri fáanlegur með íslensku viðmóti. Skólastjórar 96 skóla sögðu það vera gert en 74 sögðu það ekki vera gert. Þeir sem sögðu það ekki gert sögðu mismunandi ástæður fyrir því. Sem dæmi má nefna að bæjarfélagið sæi um slík innkaup, ekki væri alltaf hægt að fá íslenskt viðmót, stefnt væri að því eða að enginn stefna væri í þessum málum.

Einnig var spurt hvort það væri opinber stefna skólans að rafrænt kennsluefni, sem skólinn notar, (í öðrum greinum en erlendum tungumálum) sé á íslensku. Í 106 skólum er það stefnan. Þeir 64 sem sögðu það ekki vera stefnu skólans voru spurðir hvers vegna og voru skýringarnar nokkuð mismunandi. Nokkrir sögðu t.d. að leitast væri við að nota efni sem væri til á íslensku en sögðu að það væri samt ekki opinber stefna skólans.  

Spurt var hvert væri sjálfgefið tungumál notendaviðmóts stýrikerfa sem nemendur hafa aðgang að í skólanum. Í ljós kom að flestir nota Windows eða 95%, 56% nota það á íslensku og 39% á ensku. Innan við 35% nota önnur kerfi sem spurt var um.

Spurt var hvort nemendur hefðu aðgang að tilteknum hugbúnaði, vöfrum, skýjum og félagstenglasíðum í tölvum skólans. Af þeim valkostum sem spurt var um sögðust flestir nota Microsoft Office, 53% nota það með íslensku viðmóti og 38% hafa viðmót á erlendu tungumáli. Internet Explorer er víða notað, 37% nota það með íslensku viðmóti og 51% hafa viðmót á erlendu tungumáli. MovieMaker segjast 63% nota, 9% nota það með íslensku viðmóti og 54% hafa viðmót á erlendu tungumáli. NotePad nota 18 % með íslensku viðmóti og 38 % með viðmóti á erlendu tungumáli. Firefox nota 29% með íslensku viðmóti og 26% á erlendu tungumáli. Google Chrome var einnig notað af meira en helmingi aðspurðra en 18% nota það með íslensku viðmóti og 36% hafa viðmót á erlendu tungumáli.
Athygli vekur að 63% skólastjóra segja að nemendur hafi ekki aðgang að Facebook í tölvum skólans. Um 12% merkja við valkostinn veit ekki en af þeim 25% sem segja að nemendur hafi aðgang að Facebook nota 19% íslenskt viðmót og 6% viðmót á erlendu tungumáli.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum