Hoppa yfir valmynd
6. júní 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samningur um styrktarframlag til Heimilis og skóla

Mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir og Ketill Magnússon formaður Landssamtakanna Heimilis og skóla, undirrituðu samning um ráðstöfun styrktarframlags til samtakanna á þessu ári.
Samningur um styrktarframlag til Heimilis og skóla
Samningur um styrktarframlag til Heimilis og skóla
Í samningi mennta- og menningarmálaráðuneytis við Heimili og skóla er gert ráð fyrir framlagi á árinu 2012 að fjárhæð 12 m. kr. Meginbreytingin á opinberum fjárstuðningi við Heimili og skóla er að nú kemur heildarstuðningur ríkisins eingöngu frá ráðuneytinu, en á undanförnum árum hefur Alþingi einnig veitt samtökunum fjárstuðning og er þetta í samræmi við breytt verklag við úthlutun á opinberum stuðningi við ýmsa aðila. Meginmarkmið samningsins eru að stuðla að bættum uppeldis- og menntunarskilyrðum barna með því að hvetja til og styðja við jákvætt og öflugt samstarf heimila og skóla og að styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu auk þess að veita þeim stuðning og hvatningu til virkrar þátttöku í skólastarfi, efla foreldrasamstarf með stuðningi við skóla, foreldraráð, skólaráð og foreldrafélög.

Til að ná fram þessum markmiðum mun Heimili og skóli m.a. annast símaráðgjöf fyrir foreldra barna í leik-, grunn- og framhaldsskólum og annast þjónustu og upplýsingagjöf við foreldraráð og foreldrafélög í leik-, grunn- og framhaldsskólum og fulltrúa foreldra í skólaráðum og skólanefndum. Þá munu samtökin einnig vinna að frekari uppbyggingu og viðhaldi á vefsíðu samtakanna með aðgengilegum upplýsingum fyrir foreldra um mál er varða uppeldi og aðkomu foreldra að skólastarfi, taka þátt í stefnumótun stjórnvalda um skóla-, fjölskyldu-, æskulýðs- og tómstundamál og koma sjónarmiðum foreldra á framfæri við yfirvöld. Þá munu samtökin taka þátt í kynningu á aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla á öllum skólastigum fyrir foreldrasamfélagið.

Ráðuneytið hefur frá stofnun Heimilis og skóla stutt fjárhagslega við samtökin en með þessum samningi er verið að festa enn betur niður en áður gagnkvæmar væntingar til ráðstöfunar á heildarfjárstuðningi ríkisins við samtökin.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum