Hoppa yfir valmynd
15. júní 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ - fyrsta skóflustungan

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri tóku fyrstu skóflustunguna að byggingu fyrir Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.
FM
FM
  • Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri tóku fyrstu skóflustunguna að byggingu fyrir Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.
  •  Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 4.000m2 byggingu sem rúmi 400-500 bóknámsnemendur.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ var formlega stofnaður 19. febrúar 2008 með undirritun samkomulags milli menntamálaráðuneytisins og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Í samkomulaginu kemur fram að aðilar séu sammála um að í fyrsta áfanga verði gert ráð fyrir allt að 4.000 m2 byggingu er rúmi 400-500 bóknámsnemendur. AF arkitektar, teikna húsið.

Við hönnun hússins var lögð áhersla á sveigjanleika og möguleika til nýbreytni og  gert ráð fyrir möguleikum til verulegrar stækkunar í framtíðinni. Það var tekið mið af þeirri hugmyndafræði að nemendur verði virkir þátttakendur í eigin námi og öðlist þannig sjálfstæði og frumkvæði.  Hönnunin tók  mið af þessum kennsluháttum með skilgreiningu á svokölluðum klasa rýmum sem samanstanda af lokuðum rýmum fyrir 20-30 nemendur, lokuðum rýmum fyrir minni hópa og opin rými bæði fyrir minni og stærri hópa og verður nýbygging skólans 4.000 fermetrar á lóð sem er um 12.000 fermetrar að stærð.

Markmið hönnunarinnar var að skapa einstaka, vandaða og fagra byggingu sem félli vel inn í hið fjölbreytta bæjarlíf í Mosfellsbæ og styrkti það um leið. Skólinn á að tengjast umhverfinu, landslaginu og bænum í lögun sinni.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ er hannaður skv. BIM-aðferðafræðinni, en hún gengur út á það að teikna bygginguna í þrívídd, þ.e. í  svokölluðu  upplýsingalíkani. Þetta líkan nýtist í hönnun, á framkvæmdatíma og sem eins konar handbók  í rekstri byggingar.

Frá byrjun var lögð áhersla á vistvæna hönnun og fljótlega var tekin sú ákvörðun að stefna að því að fá vottun skv. BREEAM, alþjóðlegu umhverfisvottunarkerfi fyrir byggingar. Þetta vottunarkerfi stuðlar að vistvænni byggingum og aukinni vellíðan notenda, en einnig má nefna lækkun á rekstrarkostnaði til langtíma. 

Verktakafyrirtækið Eykt var lægstbjóðandi í byggingu Framhaldsskólans með tilboð að fjárhæð 1.049 þús.kr. Gert er ráð fyrir að hafist verði handa við framkvæmdir strax í næstu viku. Verklok er áætluð í nóvember 2013.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, telur að  hér sé um mikilvægan áfanga að ræða í uppbyggingu framhaldsskóla í landinu, sem munu stuðla að aukinni fjölbreytni og falli vel að nýjum markmiðum og leiðum í framhaldsskólalögunum. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hefur verið virkur í þróun og breytingum í samræmi við nýjar áherslur í aðalnámskrá og ný skólabygging mun gera honum kleift að takast á við enn frekari verkefni af því tagi.

Haraldur Sverrisson bæjarstóri sagði við athöfnina að þetta væri geysilegt fagnaðarefni fyrir Mosfellinga.  Það hefði verið stór áfangi þegar skólinn hóf starfssemi sína í Mosfellsbæ haustið 2009 í gamla Brúarlandshúsinu en það húsnæði væri nú orðið allt of lítið.  Þessi nýja skólabygging og það líf sem þeirri starfssemi fylgir verður mikil lyftistöng fyrir bæjarlífið og ekki síst miðbæinn okkar þar sem þessi bygging mun setja mikinn svip á umhverfið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum