Hoppa yfir valmynd
4. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þingmál mennta- og menningarmálaráðherra á 141. löggjafarþingi

Yfirlit yfir lagafrumvörp og tillögu til þingsályktunar, sem mennta- og menningarmálaráðherra mun leggja fram á Alþingi.

mennta- og menningarmálaráðuneytið
mennta- og menningarmálaráðuneytið
Mennta- og menningarmálaráðuneyti – þingmál á 141. löggjafarþingi 2012 – 2013

 

1. Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið – fjölmiðil í almannaþágu

Frumvarpið er afrakstur  endurskoðunar á gildandi lögum um Ríkisútvarpið nr. 6/2007 í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra laga og til að bregðast  við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA.

Frumvarpið er m.a. byggt á vinnu nefndar sem gerði tillögur um úrbætur á fjárhags- og lagaumhverfi Ríkisútvarpsins ohf.  Að auki eru tilefni lagabreytinganna athugasemdir frá ríkisstyrkjadeild Eftirlitsstofnunar EFTA .

Frumvarpið er samið af nefnd ráðherra um endurskoðun laga nr. 6/2007 í samráði við helstu hagsmunaaðila.


2. Frumvarp til laga um breytingar á bókmenntasjóði o.fl.

Tilgangur frumvarpsins er að koma á fót miðstöð íslenskra bókmennta er taki við hlutverki bókmenntasjóðs.

Með frumvarpinu er fylgt eftir því kynningarstarfi á íslenskum bókmenntum sem fékkst með þátttöku Íslands sem heiðurgests á bókasýningunni í Frankfurt 2011.

Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila.


3. Frumvarp til laga um breytingu á íþróttalögum (lyfjaeftirlit)

Tilgangur frumvarpsins er að heimila ráðherra að fela þar til bærum aðila að hafa með höndum lyfjaeftirlit í íþróttum. Með því er verið að efna skuldbindingar íslenskra stjórnvalda um slíkt eftirlit til samræmis við alþjóðasamninga UNESCO og Evrópuráðsins um lyfjaeftirlit.

Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila.


4. Tillaga til þingsályktunar um menningarstefnu

Með þingsályktunartillögunni er lögð fram heildstæð menningarstefna, sem myndar ramma um framtíðarsýn og áherslur ríkisins í menningarmálum.

Menningarstefnan byggir m.a. á niðurstöðum menningarþings, Menningarlandið 2010 – mótun menningarstefnu og á skýrslunni: Sköpun, aðgengi og heildarsýn.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir um þetta málefni m.a.: „Mótuð verði menningarstefna til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa að menningarmálum“.

 

5. Frumvarp til bókasafnalaga

Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997 og laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982. Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Tilgangur frumvarpsins er að efla starfsemi og samvinnu bókasafna þannig að þau geti sem best gegnt því hlutverki sínu að vera þekkingarveitur og fræðslustofnanir, sem halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sem flestum sviðum og tryggja jafnframt varðveislu þess menningararfs sem bókasöfn hafa að geyma.

Frumvarpið er samið af nefnd sem ráðherra skipaði upphaflega 24. júní 2003 og lauk endanlega störfum 10. október 2006.

 

6. Frumvarp til laga um opinber skjalasöfn

Markmið frumvarpsins er að tryggja vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.

Meginmarkmið þeirrar endurskoðunar, sem felst í frumvarpinu miðað við gildandi lög, er að einfalda stjórnsýslu á málefnasviði Þjóðskjalasafnsins, skýra hana frekar með hliðsjón af fjölþættu hlutverki safnsins og stuðla að hagkvæmni og skilvirkni í rekstri þess.

Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila.

 

7. Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna

Með frumvarpi um ný heildarlög fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna er stefnt að því að skýra tilgang og markmið námslánakerfisins og meta stöðu þess með hliðsjón af þróun námsframboðs og menntunar á háskólastigi.

Frumvarpið hefur skírskotun í samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar,þar sem m.a. segir: „Framfærslugrunnur LÍN verði endurskoðaður með það að markmiði að hækka hann í áföngum og núverandi ábyrgðarmannakerfi afnumið strax á sumarþingi “[2009]. 

Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og er m.a. byggt á tillögum nefndar um endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með áorðnum breytingum.

 

8. Frumvarp til laga um sviðslistarlög

Markmið frumvarpsins er að efla íslenskar sviðslistir, kveða á um skipan og fyrirkomulag og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, óperuflutning, listdans og skylda liststarfsemi, sem heyra ekki undir lög um aðrar listgreinar.

Frumvarpið felur í sér endurskoðun á leiklistarlögum nr. 138/1998. Lagt er til að endurskoðuð lög nái til allra sviðslista og heiti því sviðslistalög.

Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila.

 

9. Frumvarp til laga á breyting á fjölmiðlalögum nr. 38/2008 – eignarhaldsreglur

Frumvarpinu er ætla að tryggja betur fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum. Með frumvarpinu eru uppfyllt ákvæði til bráðabirgða í fjölmiðlalögum um að mennta- og menningarmálaráðherra skuli skipa nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um viðeigandi takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum. Þá er í frumvarpinu lagðar til nokkrar endurbætur á gildandi lögum í ljósi fram kominna athugasemda frá evrópskum eftirlitsstofnunum og fjölmiðlanefnd.

Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og er m.a. byggt á tillögum nefndar ráðherra um eignarhald á fjölmiðlum.

 

10. Frumvarp til laga um breyting á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, með áorðnum breytingum (niðurlagning laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/2009og samstarfsnet opinberra háskóla

Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi Hólaskóla -Háskólans á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands verði felld undir lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 og lög um búnaðarfræðslu falli brott.  Þá er lagt til að lögfest verði samstarf opinberra háskóla, sem nefnt er háskólanet.

Við samþykkt laga nr. 63/2006 og flutning á forræði landbúnaðarskólanna frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis var ráð fyrir því gert að skólarnir yrðu síðar felldir undir almenn lög um opinbera háskóla.

Frá árinu 2010 hafa opinberir háskólar haft með sér samstarf um margvíslega þætti kennslu og rannsókna til aukinnar hagræðingar og hugsanlegrar sameiningar. Með frumvarpinu er lagt til að þessi samstarfsvettvangur verði þróaður frekar með lögfestingu samstarfsins.

Frumvarpið er samið í ráðuneytinu í samvinnu við Samstarfsnefnd háskólastigsins. Ráðuneytið ráðfærði sig sérstaklega við LBHÍ og HH vegna breytinganna.

 

11. Frumvarp til laga um tónlistarskóla

Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985. Í því felst tillaga að fyrstu heildarlöggjöfinni um starfsemi tónlistarskóla, jafnframt því sem frumvarpinu er ætlað að lögfesta það samkomulag, sem gert var á milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og afnám hindrana fyrir skólasókn utan lögheimilissveitarfélaga.

Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og er m.a. byggt á tillögum nefndar um endurskoðun á lögum nr. 75/1985.

 

12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir

Meðal breytinga sem felast í frumvarpinu er að stefnt er að sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs og að Innviðasjóður taki við hlutverki Tækjasjóðs og hlutverk hans útvíkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, s.s. gagnagrunna. Þá er lagt til að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt sérstök lagastoð.      

Frumvarpið hefur skírskotun til samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar en þar sem m.a. segir að tryggja eigi áfram öflugt rannsóknarstarf á Íslandi.

Frumvarpið er samið í ráðuneytinu í samráði við helstu hagsmunaaðila, s.s. vísinda- og tækninefnd og háskóla. Frumvarpið hefur verið birt opinberlega til almennra athugasemda.

 

13. Frumvarp til laga um breytingu á  framhaldsskólalögum (nemaleyfisnefndir)

Tilgangur frumvarpsins er að renna stoðum undir hlutverk og störf nemaleyfisnefnda. Nemaleyfisnefndir hafa verið starfræktar um árabil í sumum iðngreinum, t.d. í snyrtigreinum og matvæla- og veitingagreinum. Stefnt er að því að skipa slíkar nefndir fyrir flestar starfsgreinar , sem kenndar eru á framhaldsskólastigi. Með tilkomu opinberra styrkja til fyrirtækja, sem annast kennslu nemenda á vinnustað (vinnustaðanámssjóður), má ætla að mikilvægi nefnda þessara aukist og verður því að vera skýr lagastoð fyrir hlutverki þeirra og starfssviði. 

Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila.

 

14. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, 73/1972

Frumvarpið er áfangi í heildarendurskoðun höfundalaga sem hófst árið 2009. Að þessu sinni eru lagðar til breytingar á 1. kafla höfundalaga jafnframt því sem fjallað er um úrræði í þágu rétthafa. 

Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins..

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum