Hoppa yfir valmynd
5. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarstefna í mannvirkjagerð skýtur fastari rótum

Mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði í dag Nordic Built sáttmálann, sem er norrænt samvinnuverkefni sem hvetur til þróunar samkeppnishæfra lausna í vistvænni mannvirkjagerð
Mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði í dag Nordic Built sáttmálann
Mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði í dag Nordic Built sáttmálann

 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hafði frumkvæði að því árið 2007 að gefa út Menningarstefnu í mannvirkjagerð, en þar er sett fram á metnaðarfullan hátt stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist.  Í stefnunni segir m.a. að sjálfbærni og vistvæn sjónarmið krefjist nýrra nálgana við skipulag, hönnun og framkvæmdir og lögð er áhersla á að opinberir aðilar séu í forystu í þessum efnum og setji sér metnaðarfull markmið. 

Á vegum ráðuneytisins eru nú þrjár nýbyggingar á hönnunar- eða framkvæmdastigi, sem allar fara í gegnum alþjóðlegt umhverfisvottunarferli. Þessar byggingar eru Hús íslenskra fræða og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ.

Mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði í dag Nordic Built sáttmálann ásamt fulltrúum þeirra arkitekta- og verkfræðistofa, sem unnið hafa að hönnun framangreindra bygginga.  Auk þeirra undirrituðu sáttmálann fulltrúar Framkvæmdasýslu ríkisins og Fasteigna ríkissjóðs.

Nordic Built er norrænt samvinnuverkefni sem hvetur til þróunar samkeppnishæfra lausna í vistvænni mannvirkjagerð.  Alþjóðleg umhverfisvottun bygginga fellur sérstaklega vel að öllum 10 meginreglum Nordic Built sáttmálans. Með þeirri hugmyndafræði, sem þar er sett fram, er við sköpun á manngerðu umhverfi leitast við að auka lífsgæði, nýta sjálfbærni, staðbundnar auðlindir og byggja á norrænni hönnunarhefð eins og hún gerist best.  Með undirrituninni í dag er því skotið enn fastari rótum undir Menningarstefnu í mannvirkjagerð.

Norræna ráðherraráðið fjármagnar verkefnið ásamt Nordic Innovation, sem einnig er í forsvari fyrir framkvæmd þess í samvinnu við Norðurlöndin. Verkefnið miðar að því að Norðurlöndin nái markmiðum sínum um að vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð. Með því að hvetja til samvinnu á milli landa og atvinnugreina er stofnað til nýstárlegs samstarfs sem skila á nýsköpun í byggingariðnaði.

Nordic Built verkefnið er eitt af sex svonefndum kyndilverkefnum sem stofnað var til í tengslum við mótun nýrrar stefnu um samvinnu í iðnaðar- og nýsköpunarmálum, með áherslu á grænan vöxt, sem norrænu viðskipta- og iðnaðarráðherrarnir samþykktu í október 2011.

Mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði í dag Nordic Built sáttmálannÁ myndinni eru frá vinstri: Kristján Garðarsson, Katrín Jakobsdóttir, Óskar Valdimarsson, Aðalheiður Atladóttir, Ögmundur Skarphéðinsson, Snævar Guðmundsson, Magnús Kristbergsson, Þorlákur Jónsson og Þráinn Sigurðsson.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum