Hoppa yfir valmynd
31. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamálaráðherrar á Norðurlöndum undirrita samning um aðgang að æðri menntun

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra undirritar samning sem hefur verið íslenskum námsmönnum til mikilla hagsbóta
Menntamálaráðherrar á Norðurlöndum undirrita samning um aðgang að æðri menntun
Menntamálaráðherrar á Norðurlöndum undirrita samning um aðgang að æðri menntun

Samningur Norðurlandanna um aðgang að æðri menntun var fyrst gerður í  september 1996 en hefur verið endurnýjaður nokkrum sinnum, síðast árið 2009 er Ísland fór með formennsku í norrænu samstarfi. Samningurinn byggir á 3. gr. samnings frá 15. mars 1971 milli Norðurlandaþjóðanna um samstarf á sviði menningarmála og er helsta markmið hans að efla norræna samvinnu á sviði æðri menntunar og skapa umsækjendum um æðri menntun eins mikið valfrelsi og kostur er auk þess að auka gæði æðri menntunar á Norðurlöndum.

Í þessu felst að Norðurlöndin hafa skuldbundið sig til þess að veita umsækjendum, sem búsettir eru í öðru Norðurlandaríki, inngöngu í æðri menntastofnanir á vegum opinberra aðila, hver í sínu landi, með sömu eða sambærilegum skilyrðum og gilda fyrir umsækjendur frá eigin landi. Rannsóknanám er þó undanþegið í samningnum.

Samkvæmt 7. gr samningsins greiða Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð bætur til móttökulands fyrir þá námsmenn, sem stunda æðra nám í öðru Norðurlandaríki. Þetta ákvæði hefur aldrei gilt fyrir Ísland eða sjálfsstjórnarsvæðin.

Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á samningnum, felast í breytingum á fyrirkomulagi greiðslna á milli þeirra aðildarlanda, sem greiða fyrir námsmenn. Samningsbreytingarnar snerta því ekki Ísland beint enda er staða þess sú sama og fyrr, að Ísland greiðir ekki frekar en sjálfsstjórnarsvæðin, fyrir þá námsmenn sem fara til hinna Norðurlandanna til náms og þiggur ekki greiðslur fyrir þá Norðurlandabúa sem koma hingað til náms.

  • Þessi samningur er mikilvægur fyrir Íslendinga og hefur verið til mikilla hagsbóta fyrir íslenska námsmenn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum