Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember 2012

Fjölbreytt dagskrá um allt land.

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í sautjánda sinn. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með margvíslegum hætti.

Athygli er vakin á nokkrum áhugaverðum viðburðum sem fram fara undir merkjum dagsins og eru opnir almenningi.

Með íslenska tungu á vör - Maraþonlestur í Ársafni

Maraþonlestur í Ársafni í Árbæ í Reykjavík, verður með svipuðu sniði og undanfarin ár á degi íslenskrar tungu kl. 11-16. Ruggustóllinn verður á sínum stað og opinn hljóðnemi. Að venju bjóða starfsmenn í þjóðbúningum upp á grófa og fína ástarpunga. Allir eru velkomnir í Ársafn að láta ljós sitt skína.

Hátíðardagskrá Mímis

Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum, stendur fyrir hátíðardagskrá 16. nóvember í tilefni af degi íslenskrar tungu. Málþingið verður haldið í Árnagarði við Suðurgötu, í stofu 301 og hefst kl. 17. Dagskráin inniheldur fjölbreytt fræðileg erindi, fjallað verður um málvernd innan fjölmiðla frá degi til dags, nýyrðasmíð, tökusagnir, íslenska tungu á stafrænni öld og málnotkun í dægurlagatextum. Einar Kárason og Dagur Hjartarson munu lesa upp úr verkum sínum auk þess sem Svavar Knútur tekur lagið fyrir hátíðargesti. Boðið verður upp á léttar veitingar og eru allir velkomnir.

Jónasarvaka í Þjóðmenningarhúsinu

Árviss Jónasarvaka verður í Þjóðmenningarhúsinu á degi íslenskrar tungu og hefst kl. 17.15. Félagið Hraun í Öxnadal stendur að henni í samvinnu við Þjóðmenningarhúsið. Á vökunni er Jónasar Hallgrímssonar, skálds og vísindamanns, minnst á fjölbreyttan hátt.

Dagskrá.

  • Markús Örn Antonsson, forstöðumaður Þjóðmenningarhússins, setur samkomuna.
  •  Dr. Guðrún Kvaran, stofustjóri orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, flytur erindið Málblíðar mæður, hnjúkafjöllin himinblá og tunglmyrkvar Júpíters.
  • Björg Þórhallsdóttir sópran syngur lög við ljóð Jónasar við undirleik Hilmars Arnar Agnarssonar.
  • Að einsöng loknum syngja allir saman Vísur Íslendinga.

 Kynnir er Tryggvi Gíslason, formaður félagsins Hraun í Öxnadal. Allir eru velkomnir.

Lífið og landið

Ljóðaþrenna með lifandi tónlist á degi íslenskrar tungu verður á Súfistanum kl. 20.30. Eyþór Árnason, Benedikt Jóhannsson og Þórður Helgason lesa úr ljóðum sínum . Katrín Magnúsdóttir syngur lög við texta Benedikts Jóhannssonar, Rúnar Steinn Benediktsson leikur undir á gítar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Samkoma í Háskólanum á Akureyri

Barnabókasetur, rannsóknarsetur um barnabókmenntir og lestur barna, og Háskólinn á Akureyri standa fyrir málþinginu YNDISLESTUR - aðlaðandi aðferðir til að auka áhuga barna á yndislestri. Málþingið verður föstudaginn 16. nóvember í Háskólanum á Akureyri á degi íslenskrar tungu og afmælisdegi hins ástsæla barnabókahöfundar Jóns Sveinssonar, Nonna. Málþingið fer fram í stofu M101 og hefst kl. 16.15. Allir eru velkomnir.

Þórarinn Eldjárn í Vík í Mýrdal

Víkurskóli í Vík í Mýrdal hefur á hverju ári sérstakt þema á degi íslenskrar tungu og í ár er það Þórarinn Eldjárn. Bókin Karnival dýranna er sérstaklega í brennidepli og er unnið með hana í listasmiðju og í íslensku. Föstudaginn 16. nóvember verður Þórarinn sjálfur á staðnum og les upp úr verkum sínum á kaffihúsakvöldi í Víkurskóla, kl. 19.30. Allir eru velkomnir.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum