Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þekkingarsetur og 100 ára afmæli Kvennaskólans á Blönduósi

Þekkingarsetrinu er ætlað að vera miðstöð öflugra rannsókna og þróunarstarfsemi í Austur-Húnavatnssýslu.

Þekkingarsetur og 100 ára afmæli Kvennaskólans á Blönduósi
Þekkingarsetur og 100 ára afmæli Kvennaskólans á Blönduósi

Mánudaginn 12. nóvember s.l. var haldið var upp á 100 ára afmæli Kvennaskólans á Blöndusósi og jafnframt undirritaður samningur um starfsemi Þekkingarseturs á Blönduósi.  Af því tilefni var blásið til fjölmenns mannfagnaðar í húsi Kvennaskólans.

Markmið þekkingarsetursins eru fjölþætt þ.e.

  • að stuðla að aukinni almennri þekkingu og fjölbreytni atvinnulífs í Austur-Húnavatnssýslu með fræðslustarfi, eflingu háskólamenntunar, vísindarannsóknum og nýsköpun,
  • bæta aðgengi íbúa Austur-Húnavatnssýslu að námi og aðstoða rannsóknanema og vísindamenn við að koma á tengslum og útvega aðstöðu,
  • stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna og fræðastarfs.

 Þekkingarsetrinu er ætlað að vera miðstöð öflugra rannsókna- og þróunarstarfsemi í Austur-Húnavatnssýslu með áherslu á rannsóknir og þróun í tengslum við sérstöðu  sýslunnar í náttúrufari, atvinnulífi og/eða menningu. Stuðla að samstarfi fyrirtækja, mennta- og menningarstofnana og rannsóknastofnana um verkefni á sviði nýsköpunar og rannsókna. Þekkingarsetrið hefur frumkvæði að rannsókna- og þjónustuverkefnum á sérsviði þess og tekur í því tilliti mið af sérstöðu byggðarlagsins til rannsókna á textíl, hafís/strandmenningu og lífríkis laxfiska. Þekkingarsetrið mun geta boðið rannsóknaaðstöðu fyrir háskólanemendur og vísindamenn.

Þekkingarsetrið mun bjóða aðstöðu fyrir íbúa til símenntunar, framhaldsfræðslu og fjarnáms og hefur þegar gert samning við Farskólann – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra þar að lútandi. 

Það fór vel á því undirrita samning um starfsemi Þekkingarsetursins á Blönduósi um leið og minnst var aldarafmælis Kvennaskólans.  Stofnun Þekkingarseturs í húsi Kvennaskólans og á grunni öflugs baklands hans í héraði og ríkrar sögu skapar hinu nýja setri ákveðna sérstöðu sem er því mikils virði.




Á myndinni eru Ingileif Oddsdóttir, Skúli Þórðarson, Katrín Jakobsdóttir og Jón Óskar Pétursson

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum