Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2012 Innviðaráðuneytið

Grunnskóli á grænu ljósi – átak í umferðaröryggi

Grunnskóli á grænu ljósi er yfirskrift átaks í umferðaröryggismálum í grunnskólum sem þrír ráðherrar hrundu formlega af stað í dag. Skrifuðu ráðherrarnir undir bréf sem sent verður grunnskólum og hnykkt á þremur mikilvægur öryggisatriðum.

Átakinu grunnskóli á grænu ljósi var hleypt af stokkunum í dag.
Átakinu grunnskóli á grænu ljósi var hleypt af stokkunum í dag.

Átakið er sameiginlegt verkefni þriggja ráðuneyta og undirstofnana, þ.e. innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis. Ögmundur Jónasson, Katrín Jakobsdóttir og Guðbjartur Hannesson skrifuðu undir bréfið að viðstöddum ungum nemendum skólans og nokkrum gestum. Fluttur var kafli úr umferðarleikriti leikhópsins Lottu og nemendur fluttu tónlist.

Þrír ráðherrar skrifuðu undir bréfið um grunnskóla á grænu ljósi.

Í átakinu er lögð áhersla á eftirfarandi þrjú atriði:

Endurskinsmerki:
Í fyrsta lagi er lögð áhersla á mikilvægi þess að nota endurskinsmerki. Með aukinni notkun á endurskinsmerkjum má draga verulega úr slysum á gangandi vegfarendum. Þeir sem nota endurskinsmerki sjást margfalt  fyrr og betur en þeir sem nota þau ekki.

Öruggar ferðaleiðir:
Í öðru lagi að öruggar ferðaleiðir séu valdar.  Mikilvægt er að huga vel að öruggum göngu- og hjólaleiðum á milli skóla og frístundastaða. Það er öllum hollt að ganga til og frá skóla og mikilvægt að draga úr bílaumferð en hafa þarf í huga að oft er öruggasta leiðin ekki sú stysta. Mikill umferðarhraði og umferðarþungi er vandamál við marga skóla og íþróttamannvirki.

Skólaakstur:
Í þriðja lagi er athyglinni beint að öryggi barna er nota skólabíla. Nokkur fjöldi nemenda í grunnskólum á Íslandi kemur í skólann með skólabílum og því er mikilvægt að allir þekki þær reglur sem gilda og eiga að tryggja sem mest öryggi. Huga þarf að notkun öryggisbelta, því hvernig gengið er að og frá hópferðarbifreið og bílstjórar þurfa að gæta sérstakrar varúðar þegar ekið er framhjá skólabifreið.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum