Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember 2012

Dagskrá mennta- og menningarmálaráðherra

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í sautjánda sinn. Dagskrá mennta- og menningarmálaráðherra:


 

Dagskrá mennta- og menningarmálaráðherra á degi íslenskrar tungu

10:00 – 11:15 Laugardalshöll, Málræktarþing unga fólksins. Ráðherra hlýðir á niðurstöður grunnskólabarna frá þremur grunnskólum sem velt hafa fyrir sér íslenskri tungu, sérstaklega með tilliti til dægurlagatexta og tölvumála. Ráðherra tekur til máls undir lok málræktarþingsins og bregst við umræðum skólabarnanna.
11:30 – 12:30 Norðlingaskóli. Ráðherra heimsækir bekki þar sem einvörðungu er notast við spjaldtölvur við kennslu og nám.
12:30 – 13:00 Norðlingaskóli. Ráðherra opnar ljóðasmáforritið Segulljóð sem ætlað er fyrir spjaldtölvur.
14:00 – 16:00 Grunnskóli og leikskólar Grindavíkur heimsóttir í fylgd bæjaryfirvalda í Grindavík.
16:00 – 16:20 Kvikan - auðlinda- og menningarhús Grindavíkur. Saltfisksetrið skoðað í fylgd bæjarstjóra Grindavíkur.
16:30 – 17:00 Kvikan - auðlinda- og menningarhús Grindavíkur. Dagskrá á degi íslenskrar tungu. Ráðherra flytur ávarp, nemar lesa ljóð og syngja. Kaffi og bakkelsi.
 18:00 – 19.00
Ráðherra afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningu í hátíðarsal í grunnskóla Álftaness.

Á vef dags íslenskrar tungu  www.menntamalaraduneyti.is/menningarmal/dit/ eru upplýsingar um hluta af því sem fram fer undir merkjum dagsins. Á vefnum er einnig vísað á ýmsa sérvefi um Jónas Hallgrímsson. Þar er einnig hugmyndabanki kennara og yfirlit um þá sem hlotið hafa hin árlegu Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu.

Nánar um ýmsa viðburði á degi íslenskrar tungu 2012:

Málræktarþing í 10. bekk á degi íslenskrar tungu

Í tilefni af degi íslenskrar tungu gangast Íslensk málnefnd og Mjólkursamsalan fyrir málræktarþingi með nemendum í 10. bekk í Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Réttarholtsskóla. Undanfarnar vikur hafa nemendurnir rætt saman um gildi íslenskrar tungu frá ýmsum hliðum, svo sem um mikilvægi þess að hafa dægurlagatexta og nýjustu tölvur og tækni á íslensku, og á málræktarþinginu munu þeir bera saman bækur sínar um þessi efni. Málræktarþingið verður haldið í Laugardalshöll. Ari Eldjárn og Páll Óskar Hjálmtýsson leggja þar orð í belg og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpar samkomuna. Dagskrá:

10.05 Setning   - Ari Eldjárn

10.10 Tónlist: Guðrún Ólafsdóttir (Réttarholtsskóla), Arnaldur Ingi (Langholtsskóla) og Saga Ólafsdóttir (Laugalækjarskóla)

10.20 Langholtsskóli

10.35 Laugalækjarskóli

10.50 Réttarholtsskóli

11.05 Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

11.15 Páll Óskar Hjálmtýsson

11.25 Veitingar í boði Mjólkursamsölunnar

Alls taka um 300 nemendur þátt í málræktarþinginu.

Ari Eldjárn verður kynnir.

Viltu tala íslensku við mig?

Íslenskuþorpið, leið til þátttöku í daglegum samskiptum á íslensku, er nýstárleg leið í tungumálanámi fyrir fólk sem er að læra íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands. Þar gefst íslenskunemum tækifæri til að æfa og nota íslensku í daglegu lífi sínu. Íslenskuþorpið er að finna innan ákveðinna fyrirtækja á háskólasvæðinu og í bæjarlífinu í Reykjavík: á kaffihúsi, bókasafni, bakaríi og sundlaug. Frú Dorrit Moussaieff opnar Íslenskuþorpið formlega á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, kl. 11, á Háskólatorgi.

Víst er málfræði skemmtileg!

Haldið verður málþing um málfræðikennslu í skólum fimmtudaginn 15. nóvember kl. 15:00-17:30 í Bratta, húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands v/Stakkahlíð. Markmiðið með málþinginu er að efna til umræðu um kennsluaðferðir og áherslur í málfræðikennslu þar sem sköpun er höfð að leiðarljósi.

Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum
Stóra upplestrarkeppnin fer nú af stað í 17. sinn og hefst formlega á degi íslenskrar tungu; eldri börnin koma í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð; verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp; ljóða- og smásagnasamkeppni; ljóð Jónasar Hallgrímssonar kynnt; íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir.

Íslenskuverðlaun unga fólksins í Bókmenntaborginni Reykjavík
Íslenskuverðlaun unga fólksins í Bókmenntaborginni Reykjavík verða afhent á degi íslenskrar tungu í Norðurljósasalnum í Hörpunni kl. 16. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti. Markmið íslenskuverðlaunanna er að auka áhuga grunnskólanema á móðurmálinu og hvetja þá til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Grunnskólanemar sem taka við verðlaunum hafa skarað fram úr á ýmsa vegu, í lestrarfærni, skapandi skrifum, ljóðsmíðum og framsögn. Nokkrir þeirra eiga annað móðurmál en íslensku en hafa sýnt miklar framfarir í íslenskunámi og tjáningu.

Segulljóð
Segulljóð er nýtt smáforrit fyrir iPad. Forritið er hugsað til notkunar við ljóðasköpun og leik með tungumálið. Það hentar vel til að útbúa stutt og hnitmiðuð ljóð og örsögur. Einnig er það tilvalið í notkun sem kveikja að stærri verkum og sem stuðningur við skapandi nám og skrif. Segulljóð inniheldur þúsundir orða sem öll hafa allar mögulegar birtinga- og beygingarmyndir.

Orðabelgur
Ingibjörg Símonardóttir og Ingibjörg Möller hafa gefið út alíslenskt borðspil sem hlotið hefur heitið Orðabelgur. Spilið býður upp á heilabrot, vangaveltur, orðaleiki og gáska, og þátttakendur leika sér með íslenskt mál á nýstárlegan hátt.

Dæmi um dagskrá í grunnskólum

Í Foldaskóla verður boðið upp á bókmenntadagskrá sem nefnist Skáld í skólum í sömu viku og dagur íslenskrar tungu er. Í 8. bekk verður fjallað um Stein Steinarr en í 9. og 10. bekk verður farið í gegnum dagskrá sem kallast Morð og stríð.

Dæmi um hvernig dagsins er minnst í leikskóla
Í leikskólanum Hlíðarenda er hefð fyrir því að halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan. Starfsmenn hafa þann háttinn á að vekja sérstaka athygli á bókum allan nóvember. Börnin koma með bók að heiman sem er lesin í leikskólanum. Einnig er lögð áhersla á ákveðinn rithöfund. Börnin fá að kynnast honum og verkum hans. Í ár er það Herdís Egilsdóttir og mun hún heimsækja Hlíðarenda á degi íslenskra tungu og lesa fyrir börnin. Áður hafa t.d. Guðrún Helgadóttir og Þórarinn Eldjárn heimsótt leikskólann á þessu degi.

Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum