Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mennta- og menningarmálaráðherra tekur við Stuðlabergi

Hleypt hefur verið af stokkunum nýju tímariti sem er helgað hagyrðingum og hinu hefðbundna ljóðform.
Mennta- og menningarmálaráðherra tekur við Stuðlabergi
Mennta- og menningarmálaráðherra tekur við Stuðlabergi

Ragnar Ingi Aðalsteinsson, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands afhenti Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra eintak af nýju tímariti sem ber heitið Stuðlaberg. Það er helgað hagyrðingum og hinu hefðbundna ljóðformi. Í tilkynningu frá útgefandanum segir: Í tímaritinu verður fjallað um allt það sem snertir hefðbundið bragform yfirleitt. Þar eru viðtöl við hagyrðinga og skáld, stuttar greinar um bragfræðileg efni, lausavísnaþáttur, sagt frá yrkingum í grunnskólum og margt fleira sem tengist hinni hefðbundnu ljóðlist. Reynt var að hafa efnið ekki það fræðilegt að það vefjist fyrir almennum lesendum að lesa það og njóta þess en jafnframt er reynt að gæta þess að hvergi sé vikið frá fræðilegum kröfum þannig að allt það sem birt er standist rýni.

Megintilgangur ritsins er að styrkja og styðja við hið hefðbundna ljóðform. Ljóðformið sem hér um ræðir, með hinum ströngu bragreglum, er ævafornt og var áður ráðandi í ljóðagerð um alla Norður-Evrópu, en sá þáttur þess sem snýr að stuðlasetningunni er löngu horfinn úr ljóðagerð nágrannaþjóðanna og er nú hvergi til í lifandi máli nema hér á Íslandi. Það má því með nokkrum rökum halda því fram að það sé okkar hlutverk að gæta þess að það glatist ekki. Í formálsorðum ritstjóra segir meðal annars:

„Þetta er kveðskaparhefðin okkar, ljóðhefðin sem við höfum varðveitt og ræktað, hefðin sem við skiljum og notum og síðast en ekki síst, hefðin sem okkur þykir vænt um og viljum ekki týna niður eða afskræma á nokkurn hátt.

Stuðlabergið er, eins og fyrr kom fram, helgað þessari fornu hefð.“

Ætlunin er að gefa Stuðlaberg út tvisvar á ári, hugsanlega oftar ef vel gengur með áskriftarsöfnun. Útgefandi, ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ragnar Ingi Aðalsteinsson.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum