Hoppa yfir valmynd
3. desember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þrjú ráðuneyti styrkja starfsemi SAFT um öryggi í netnotkun

SAFT verkefnið hefur náð góðum árangri í forvörnum og fræðslu og aukið vitund almennings um öryggi í netnotkun.

Þrjú ráðuneyti styrkja starfsemi SAFT um öryggi í netnotkun
Þrjú ráðuneyti styrkja starfsemi SAFT um öryggi í netnotkun


Í dag var undirritaður samningur um stuðning við starfsemi SAFT verkefnisins til ársloka 2014. Að samningnum standa mennta- og menningarmálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti annars vegar og hins vegar Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjóri og Barnaheill – Save the Children á Íslandi.

Samningurinn snýr að rekstri SAFT verkefnisins á Íslandi, en markmið og viðfangsefni þess er að reka vakningarátak og fræðslu um örugga og jákvæða notkun netsins meðal barna og ungmenna, foreldra, kennara, fjölmiðla og þeirra sem starfa við upplýsingatækni.  Jafnframt að berjast gegn ólöglegu efni á netinu og að veita börnum og ungmennum aðstoð í gegnum hjálparlínu.  Verkefnið er í miklu samstarfi við Norðurlöndin og er einnig starfrækt sem hluti af Netöryggisáætlun Evrópusambandsins, sem nær til allra landa á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Öflugt starf er unnið á vegum SAFT á sviði forvarna og fræðslu og kannanir sýna fram á góðan árangur verkefnisins á Íslandi og aukna vitundarvakningu um öryggi í netnotkun. Til marks um þetta voru þrjú verkefni á vegum SAFT á Íslandi nýlega valin meðal þeirra bestu í Evrópu á þessu sviði. Ungmennaráð SAFT hefur einnig vakið athygli fyrir vasklega framgöngu, meðal annars í jafningjafræðslu og með þátttöku í þróun rafrænna skilríkja, sem nýst gætu á samfélagssíðum á borð við Facebook. Ungmennaráðið tók þátt í að stofna Nordic Youth IGF (Internet Governance Forum- norrænt ungmennaráð um stjórnsýslu internetsins) með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en stofnfundur var í Stokkhólmi júní sl. Á þennan hátt hefur SAFT-verkefnið átt frumkvæði að því að mynda samráðsvettvang um netið á Íslandi.

 Þrjú verkefni sameinast í SAFT: Hjálparlína, ábendingarlína og vakningarátak. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur lagt sérstaka áherslu á þátttöku í vakningarátaksverkefni og innanríkisráðuneytið hefur lagt áherslu á verkefni tengd hjálparlínu (meðal annars með áframhaldandi samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun) og verkefni tengd ábendingalínu (meðal annars með áframhaldandi samstarfi við ríkislögreglustjóra).

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum