Hoppa yfir valmynd
19. desember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samningur við Árnastofnun

Árangursstjórnunarsamningur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undirritaður.

Samningur við Árnastofnun
Samningur við Árnastofnun

Árangursstjórnunarsamningur á milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var undirritaður í Árnagarði 19. desember 2012.  Í samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við útfærslu á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar. Tilgangurinn er að festa í sessi ákveðið samskiptaferli og upplýsingamiðlun á milli ráðuneytisins og stofnunarinnar ásamt því að leggja grunn að áætlanagerð og mati á árangri af starfsemi hennar.  Samkomulagið breytir ekki lögbundnum skyldum stofnunarinnar og heimildum ráðherra.

Í sérstökum viðauka samningsins er gerð ítarleg grein fyrir stefnu, markmiðum  og áherslum Stofnunar Árna Magnússonar og fyrir 1. apríl 2013 skal lokið skilgreiningu mælikvarða til að mæla árangur stofnunarinnar á grundvelli fyrirliggjandi stefnu og markmiða. Viðauki  samnings verður síðan til umræðu og endurskoðunar á reglubundnum fundum samningsaðila.

Megináherslur í starfi Stofnunar Árna Magnússonar eru m.a. eftirfarandi:

  • Að vinna að rannsóknum og miðlun á starfssviði sínu í samstarfi við: Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir; rannsókna- og menningarstofnanir, fræðasetur og söfn um allt land; fyrirtæki á sviði útgáfu, upplýsingatækni, afþreyingar, ferðaþjónustu og menningarmiðlunar; alþjóðlegar systurstofnanir og háskóla þar sem íslensk fræði eru kennd. En síðast en ekki síst að vera í öflugu samstarfi við almenning í landinu. 
  •  Að afla íslenskra handrita og annarra frumgagna eftir því sem kostur er og vinna að söfnun, skráningu og varðveislu þjóðfræðaefnis.
  • Að vinna að örnefna- og orðasöfnun.
  • Að vinna að málfarsráðgjöf m.a. með útgáfu leiðbeiningaefnis, styrkingu íðorðasafns með fræðilegri ráðgjöf til orðanefnda og annarra sem til hennar leita.
  • Að halda úti öflugri heimasíðu sem veitir aðgang að gagnasöfnum hennar, orðabókargrunnum, íðorðabanka, örnefna- og þjóðfræðagrunnum, stafrænum handritamyndum og margvíslegum efnisskrám og lyklum.
  • Að vera skrifstofa Íslenskrar málnefndar og hafa náið samstarf við hana um  mótun opinberrar íslenskrar málstefnu.
  • Að vera skrifstofa Málnefndar um íslenskt táknmál og skrifstofa Örnefnanefndar.
  • Að annast stuðning við kennslu í íslensku við erlenda háskóla, samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, og umsýslu styrkja mennta- og menningarmálaráðuneytis til erlendra stúdenta til íslenskunáms við Háskóla Íslands.
  • Að leitast við að styðja við menntun stúdenta í greinum sem fást við íslensk fræði og efla rannsóknir og kynningu á íslenskum fræðum innan lands og í alþjóðlegu fræðasamfélagi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum