Hoppa yfir valmynd
21. desember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Frumvarp til laga um örnefni

Starfshópur um endurskoðun laga um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953 hefur skilað af sér drögum að frumvarpi.

Frumvarp til laga um örnefni
Frumvarp til laga um örnefni

Starfshópur um endurskoðun laga um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, hefur nú lokið störfum og látið Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í té drög að frumvarpi til nýrra laga um örnefni. Í starfshópnum voru Þórunn Sigurðardóttir íslenskufræðingur, formaður örnefnanefndar, Svavar Sigmundsson fyrrverandi forstöðumaður Örnefnastofnunar Íslands, Tryggvi Már Ingvarsson sérfræðingur hjá Þjóðskrá Íslands og Margrét Magnúsdóttir lögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Megintillögur starfshópsins felast í því að aðlaga lög um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, að nútímabúsetuháttum í landinu og skipulagsmálum. Við vinnu starfshópsins voru tvö megin­markmið höfð að leiðarljósi, þ.e. örnefnavernd og öryggissjónarmið.

Í skilagrein starfshópsins segir m.a.:

„Örnefni eru hluti af menningarminjum íslensku þjóðarinnar og hafa mörg hver varðveist frá fyrstu tíð búsetu í landinu. Í frumvarpinu er kveðið á um mikilvægar breytingar sem miða fyrst og fremst að því að stuðla að verndun þessara minja og að þeim verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Unnið hefur verið markvisst að því í hundrað ár að safna örnefnum og rannsaka þau hér á landi og örnefni hafa jafn lengi verið talin meðal styrkustu stoða menningararfsins og íslenskrar þjóðarvitundar. Viðhald menningarerfða af þessu tagi er af Menningarmála­stofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) talið vera mikilvæg driffjöður menningarlegrar fjölbreytni. Jafnframt er hætta á að alþjóðavæðing og ýmis félagsleg umbrot í nútímanum verði til þess að menningarerfðir eyðileggist eða hverfi með öllu. Verði frumvarpið að lögum mun það stuðla að því að hefðbundin örnefni verði varðveitt eftir því sem framast er unnt og að ný örnefni verði ekki innleidd þar sem arfbundin nöfn eru til staðar. Frumvarpið stuðlar jafnframt að því að nafngiftahefðir séu í heiðri hafðar við myndun nýrra örnefna og þau séu í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Þá liggja tiltekin öryggissjónarmið að baki frumvarpinu. Stefnt er að því að skýra og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna svo að nafngiftir endurspegli sem best raunveruleikann hverju sinni, þannig að endanleg nafngift komist á sem fyrst í ferlinu. Þá er ákvörðunarvaldið flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti.

Ákveðin hætta er á að alþjóðavæðing á sviði upplýsingatækni í nútímanum verði til þess að menningarerfðir glatist. Dæmi um þetta er miðlun og framsetning landfræðilegra upplýsinga um Ísland á vefkortum fyrirtækja og samtaka (t.d. Loftmyndir ehf., Samsýnar ehf, Google maps og OpenStreetMap) þar sem íslensk örnefni liggja ekki endilega til grundvallar. Opinn og aðgengilegur örnefnagrunnur stuðlar að samræmi upplýsinga og þar með auknu öryggi notenda, sem byggja staðarvitund sína í auknum mæli á verkfærum líkt og snjallsímum eða fistölvum með innbyggðri staðsetningartækni, t.a.m. GPS.

Með lögfestingu frumvarpsins er ætlunin að stuðla að þekkingu almennings á örnefnum og því að notkun þeirra verði almenn. Með það að markmiði er ráðgert að innihald örnefna­grunnsins verði aðgengilegt sem opin gögn og án gjaldtöku. Hér er því talið, með vísan til framangreinds, að talsverður ávinningur verði af frumvarpinu fyrir almenning“.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum