Hoppa yfir valmynd
21. desember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

 Árangursstjórnunarsamningur milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum undirritaður

Með samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, við útfærslu á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar.

Árangursstjórnunarsamningur milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands
Árangursstjórnunarsamningur milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands

Nýlega undirrituðu Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurður Ingvarsson forstöðumaður árangursstjórnarsamning milli ráðuneytisins og Tilraunstöðvar Háskóla Íslands að Keldum.  Með samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, við útfærslu á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar. Tilgangurinn er að festa í sessi ákveðið samskiptaferli og upplýsingamiðlun á milli ráðuneytisins og stofnunarinnar ásamt því að leggja grunn að áætlanagerð og mati á árangri af starfsemi hennar.

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er ríkisstofnun undir yfirstjórn mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hlutverk stofnunarinnar er að stunda rannsóknir og sjúkdómagreiningar á sviði dýrasjúkdóma og dýraheilbrigðis. Stofnunin starfar eftir lögum nr. 67/1990 um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum með síðari breytingum og lögum nr. 50/1986 um Rannsóknadeild fisksjúkdóma með síðari breytingum. Starfsemin er fjölþætt og aðferðum margra fræðigreina er beitt í rannsóknum og þjónustu, þ.e. príonfræði, veirufræði, bakteríufræði, sníkjudýrafræði, meinafræði, ónæmisfræði og sameindalíffræði.

Helstu verkefni Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum samkvæmt lögum eru:

1. Að stunda grunnrannsóknir í líf- og læknisfræði dýra og manna.

2. Að annast rannsóknir og þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdómsgreininga og sjúkdómsvarna fyrir búfé og önnur dýr í samstarfi við Matvælastofnun og þróa aðferðir í því skyni. Enn fremur að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um allt er varðar sjúkdóma í dýrum og varnir gegn þeim.

3. Að þróa, framleiða, flytja inn og dreifa bóluefni og lyfjum gegn sjúkdómum í búfé og öðrum dýrum.

4. Að veita háskólakennurum og öðrum sérfræðingum, sem ráðnir eru til kennslu og rannsókna á sviðum stofnunarinnar, aðstöðu til rannsókna eftir því sem við verður komið.

5. Að annast endurmenntun dýralækna eftir því sem aðstæður leyfa og miðlun upplýsinga til þeirra í samvinnu við Matvælastofnun.

6. Að annast eldi á tilraunadýrum fyrir vísindalegar rannsóknir í landinu.

7. Að taka þátt í rannsóknum og þróunarvinnu í þágu líftækni og líftækniiðnaðar í landinu.

Samningurinn verður birtur á vef ráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum