Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norræna félagið heimsótt

Katrín Jakobsdóttir kynnti sér starfsemi Norræna félagsins.
Katrín Jakobsdóttir kynnti sér starfsemi Norræna félagsins.
Katrín Jakobsdóttir kynnti sér starfsemi Norræna félagsins.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Norræna félagið og kynnti sér starfsemi þess. Formaður félagsins, Ragnheiður H. Þórarinsdóttir og varaformaður, Bogi Ágústsson tóku á móti ráðherra og fylgdarliði hans ásamt Ásdísi Evu Hannesdóttur, framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum.

Norræna félagið var stofnað árið 1922 og var því 90 ára á síðasta ári. Af því tilefni var efnt til fjölmargra viðburða, t.d. fyrirlestrarröð í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands, haldið var höfuðborgarmót, haldin málþing og fyrirlestrar svo fátt eitt sé nefnt. Starfsemi félagsins er fjölbreytt, það veitir margvíslega þjónustu og kynningu á norrænum málefnum. Það starfar í 30 félagsdeildum um allt land og er starf þeirra mjög fjölbreytt, en víða er kjölfestan norrænt vinabæjasamstarf, ungmennaskipti, viðburðahald og samstarf við viðkomandi sveitarfélag um norræn verkefni.

Meðal helstu verkefna Norræna félagsins má nefna Nordjobb, um miðlun sumarvinnu o.fl á Norðurlöndum til ungmenna á aldrinum 18-28 ára   .     , Halló Norðurlönd, sem veitir hagnýtar upplýsingar um flutning milli Norðurlandanna og Norrænu upplýsingaskrifstofuna á Akureyri, sem veitir upplýsingar um norrænt samstarf og stuðlar að samvinnu þeirra sem vinna að norrænum verkefnum. Þá rekur Norræna félagið Snorraverkefnin í samvinnu við Þjóðræknifélagið, sem gefa Vestur-Íslendingum kost á að grafa upp rætur sínar á Íslandi, stendur fyrir Norrænu bókasafnavikunni og Norðurlöndin í bíó, sem er útgáfa norrænna stuttmynda á mynddiskum sem ætlaðar eru til kennslu. Loks ber að nefna að Norræna félagið hafði forgöngu að gerð Minningarlunds um þá sem féllu í voðaverkunum í Útey í Noregi og verður gerð hans formlega lokið og hann vígður á þjóðhátíðardegi Norðmanna 17. maí nk.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum