Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn

60 millj.kr. veittar til gerðar íslenskra verkefna árið 2012.

Starfsemi Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins var með hefðbundnum hætti árið 2012 en alls voru veittar um 59,9 m.kr. eða um 2,58 m.Nkr. í styrki til íslenskra verkefna á tímabilinu. Eftirtalin verkefni hlutu styrk:  Fyrirtækið Mystery Island fékk framleiðslustyrk til að vinna að gerð leiknu kvikmyndarinnar Málmhaus. Leikstjóri er Ragnar Bragason.

Árið 2011 veitti sjóðurinn fyrirtækinu þróunarstyrk til að fullgera handrit myndarinnar. Saga film og leikstjórinn Óskar Jónasson fengu framleiðslustyrk til að framleiða leiknu sjónvarpsþáttaröðina Pressa III, þáttaröð sem sýnd er á Stöð 2. Fyrirtækið Zik Zak hlaut framleiðslustyrk leiknu kvikmyndarinnar Svartur á leik, sem Óskar Þór Axelsson leikstýrir. Framleiðendur eru Þórir Snær Sigurjónsson og Skúli Malmquist. Fyrirtækið Edison - lifandi ljósmyndir hlaut framleiðslustyrk vegna heimildamyndarinnar Aska í leikstjórn Herberts Sveinbjörnssonar. Myndin fjallar um eldgosið í Eyjafjallajökli og áhrifum þess á þrjár fjölskyldur. Fyrirtækið LoFi Production hlaut framleiðslustyrk vegna heimildamyndarinnar Um stund, sem Markús Þór Andrésson og Ragnheiður Gestsdóttir leikstýra. Myndin fjallar um líf og starf listamannsins Hreins Friðfinnssonar. Veittur var menningarstyrkur til Reykjavik film festival en hann tengist verkefninu „New landscapes – Terra Nowa“. Hrönn Marinósdóttir er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Veittir voru dreifingarstyrkir vegna verkefna sem tengjast Nordic High Five 2012. Fyrirtækið Græna ljósið, sem sérhæfir sig í dreifingu óháðra mynda, stóð að sýningu norrænna kvikmynda og fékk til þess styrk. Auk þess veitti sjóðurinn samnorræna kvikmyndastyrki og loks má nefna að veittur var styrkur til að dreifa norrænum myndum í Bandaríkjunum. Þessir styrkir gagnast öllum sem aðild eiga að sjóðnum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Stöð 2 og Ríkisútvarpið greiddu samtals 8,8 m.kr. í aðildargjöld á liðnu ári.  Fulltrúi Íslands í stjórn sjóðsins er Bjarni Guðmundsson.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum