Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kynning á tillögu nefndar um frumvarp til laga um tónlistarskóla

Opið samráðsferli um frumvarpstillöguna til þess að gefa öllum kost á að kynna sér efni hennar og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins.

Kynning á tillögu nefndar um frumvarp til laga um tónlistarskóla
Kynning á tillögu nefndar um frumvarp til laga um tónlistarskóla

Nefnd um endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, hefur lokið störfum og afhent Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, tillögu sína að frumvarpi til laga um tónlistarskóla.

Frumvarpstillagan fer nú í opið samráðsferli  á vef ráðuneytisins til þess að gefa öllum kost á að kynna sér efni hennar og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegs frumvarps, sem ráðherra leggur fyrir Alþingi. Veittur er frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin til  6. febrúar 2013. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram, með vísan til tiltekinna greina frumvarpsins þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á: [email protected] með  efnislínunni: „Frumvarp til laga um tónlistarskóla“.

Aðdraganda endurskoðunar á lögum nr. 75/1985 má rekja til ársins 2003 þegar þáverandi menntamálaráðherra skipaði viðræðunefnd milli menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu og fyrirkomulag tónlistarkennslu á framhaldsskólastigi. Frumvarp til laga um tónlistarskóla var undirbúið af nefnd sem ráðherra skipaði í desember 2010. Í henni áttu sæti: Erna Guðrún Árnadóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti, Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Laufey Ólafsdóttir, deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg, Sigrún Grendal Jóhannesdóttir, tónlistarskólakennari, Sigursveinn Magnússon, tónlistarskólastjóri og Sigurður Hjörtur Flosason, aðstoðartónlistarskólastjóri. Jón Vilberg Guðjónsson, skrifstofustjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti,var skipaður formaður nefndarinnar. Með nefndinni starfaði einnig Margrét Magnúsdóttir, lögfræðingur í ráðuneytinu.

Helstu nýmæli sem felast í frumvarpstillögu nefndarinnar eru m.a. eftirfarandi:

  1. Lagt til að sett verði heildstæð löggjöf um starfsemi tónlistarskóla.
  2. Lagt er til að fjallað verði um skipan tónlistarnáms og  hlutverk ráðuneytisins og sveitarfélaga með nánari hætti en áður. Einnig verði  ábyrgð og skyldur, gagnvart einstökum þáttum á sviði tónlistarfræðslu, skilgreindar með skýrari hætti en gert er í gildandi lögum.
  3. Í frumvarpinu er lagt til að öllum, sem uppfylla skilyrði laganna, verði heimilt að stofna tónlistarskóla. Tónlistarskólar eigi þó ekki sjálfkrafa kröfu á framlög úr hendi sveitarfélaga eða styrkjum af almannafé.
  4. Lagt er til að fjallað verði um starfsgengisskilyrði skólastjóra og kennara. Jafnframt að óheimilt verði að ráða einstakling til starfa við tónlistarskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.
  5. Lagðar eru til breytingar á fjárstuðningi og kostnaðarþátttöku hins opinbera frá gildandi lögum. Í þeim felst að ríkissjóður veiti árlega  fjárveitingu á fjárlögum til sveitarfélaga sem renni til kennslukostnaðar sveitarfélaga vegna mið- og framhaldsnáms í söng og framhaldsnáms í hljóðfæraleik sem fram fer samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.
  6. Mælt er  fyrir um fjárstuðning nemenda til tónlistarnáms utan lögheimilissveitarfélags síns.  Slíkur réttur nemenda til tónlistarnáms, utan lögheimilissveitarfélags, skal háður samningi þess við hlutaðeigandi tónlistarskóla eða reglum skv. 17. gr. frumvarpsins.
  7. Mælt er fyrir um að nánar verði kveðið á um skyldur einstakra tónlistarskóla um innritun nemenda og þær reglur sem skóli hyggst leggja til grundvallar innritun nemenda í þjónustusamningi skv. 8. gr. frumvarpsins.
  8. Gert er ráð fyrir að tónlistarskólar eigi rétt á framlögum úr sameiginlegum sprotasjóði skóla, sem hefur fram til þessa verið starfræktur í þágu leik-, grunn- og framhaldsskóla. Hlutverk sjóðsins hefur m.a. verið að styðja við þróunarstarf og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og er lagt til að sjóðurinn styðji einnig við skólastarf í tónlistarskólum.

Rekstur tónlistarskóla hefur fram til þessa verið valkvætt verkefni sveitarfélaga og felur tillaga nefndarinnar ekki í sér breytingu á því fyrirkomulagi. Í frumvarpinu er kveðið á um starfsemi tónlistarskóla með mun skýrari hætti en í gildandi lögum. Þá er sérstaklega mælt fyrir um að sjálfstætt starfandi tónlistarskólar eigi rétt á viðurkenningu ráðuneytis og gert ráð fyrir tilteknum lágmarkskröfum um efni þjónustusamnings milli slíkra skóla og sveitarfélaganna. Í frumvarpinu er lagt til að ríkissjóður veiti árlegt framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem  renna skal til  kennslukostnaðar að viðbættu álagi fyrir stjórnunarkostnað vegna mið- og framhaldsnáms í söng og framhaldsnáms í hljóðfæraleik.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum