Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Halldór Laxness og menningararfurinn

Mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar málþing um varðveislu og skráningu gagna er tengjast Halldóri Laxness.

Halldór Laxness og menningararfurinn
Halldór Laxness og menningararfurinn

Í dag var haldið málþing um varðveislu og skráningu gagna er tengjast Halldóri Laxness. Meðal þeirra gagna sem til eru má telja upplestra Halldórs, ljósmyndir af honum og sem hann hefur tekið, handrit og margt fleira. Geymslustaðir gagnanna fara eftir eðli þeirra eins og gera má ráð fyrir. Upplestra Halldórs, viðtöl við hann og fleira má finna í safni Ríkisútvarpsins og Landsbókasafn Íslands varðveitir handritasafn hans ásamt bréfum, minniskompum og fleiru en þar hafa þau verið skráð og flokkuð. Síðast en ekki síst má nefna Gljúfrastein þar sem munir sem tilheyra heimili Halldórs eru varðveittir en þeir eru einnig skráðir í Sarp, landskerfi byggðasafna.

Þar sem varðveislustaðirnir eru margir og skráningarkerfin eru ólík er mikilvægt að yfirsýn sé höfð yfir þessi menningarverðmæti. Málþingið er haldið til að vekja athygli á margbreytileika minjanna og þeirri hættu sem steðjað gæti að ef ekki er vel haldið utan um slík gögn.

 Í ávarpi sínu við upphaf málþingsins sagði Katrín Jakobsdóttir m.a.: „Gljúfrasteinn, hús skáldsins, sem bíður til þessa málþings í dag hefur hlutverki að gegna sem er nokkuð óvenjulegt þegar litið er yfir flóru menningarstofnanna og menningarverkefna sem hið opinbera stendur að hér á landi. Í Gljúfrasteini er fyrst og fremst lögð áhersla á arfleifð eins manns. Halldór Laxness er jú vissulega risi í bókmenntum Íslendinga á 20. öld en þegar betur er að gáð má finna áhrifunum víða stað, þræðirnir liggja víða og jafnvel hægt að tala um margfeldisáhrif skáldsins á öðrum sviðum íslenskrar menningar. Það er því einkar forvitnilegt og til eftirbreytni að tilsjónaraðili þessa arfs, Gljúfrasteinn og það fólk sem þar starfar, skuli taka upp samtal við ýmsa þá aðila sem að málinu koma. Slík áhersla á samstarf ólíkra menningarstofnanna er mikilvæg og hentar kannski ekki síður vel í málefnum menningararfsins en hún gerir á sviði frumsköpunar í listum“.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum