Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýr myndlistarsjóður og myndlistarráð tekur til starfa

Markmið myndlistarsjóðs eru m.a. að veita styrki til myndlistar og sýninga innan lands sem utan.

Í myndlistarlögum nr. 64/2012 eru þau nýmæli að komið er á fót myndlistarsjóði og skipað myndlistarráð. Markmið myndlistarsjóðs eru skv. lögunum “ að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kosta önnur verkefni er falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs“. Fjárveitingar til myndlistarsjóðs verða  45 milljónir. kr. á yfirstandandi ári. Formlegur myndlistarsjóður, sem styður við innlenda myndlist og sýningar innan lands sem utan, hefur ekki verið til staðar áður á vegum ráðuneytisins. Hins vegar hefur ráðuneytið um árabil veitt ferðastyrki og styrki til myndlistarmanna fyrir sýningar og verkefna erlendis og veitt fjárstuðning til reksturs á Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað í myndlistarráð. Helstu verkefni þess eru m.a. að úthluta styrkjum úr myndlistarsjóði, stuðla að alþjóðasamstarfi og kynningu á íslenskum myndlistarmönnum ásamt því að vera ráðherra til ráðgjafar um málefni myndlistar.

Myndlistarráð er þannig skipað:

  • Auður Ava Ólafsdóttir formaður, skipuð án tilnefningar,
  • Ólöf K. Sigurðardóttir varaformaður, tilnefnd af Listfræðafélagi Íslands,
  • Ásmundur Ásmundsson tilnefndur af Sambandi íslenskra myndlistarmanna,
  • Ósk Vilhjálmsdóttir tilnefnd af Sambandi íslenskra myndlistarmanna,
  • Halldór Björn Runólfsson tilnefndur af Listasafni Íslands.

Varamenn eru:

  • Kristján Steingrímur Jónsson skipaður án tilnefningar,
  • Hlynur Helgason tilnefndur af Listfræðafélagi Íslands,
  • Hrafnhildur Sigurðardóttir tilnefnd af Sambandi íslenskra myndlistarmanna,
  • Ingibjörg Gunnlaugsdóttir tilnefnd af Sambandi íslenskra myndlistarmanna,
  • Dagný Heiðdal tilnefnd af Listasafni Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum