Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aukin framlög til kvikmyndagerðar

Kvikmyndamiðstöð kynnti bætta stöðu greinarinnar og ný verk í vinnslu.

Í fjárlögum fyrir árið 2013 hækkar framlag til Kvikmyndasjóðs Íslands í ríflega einn milljarð. Bróðurhluti hins aukna framlags er vegna fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar þar sem gert er ráð fyrir 470 milljón kr. aukaframlagi til Kvikmyndasjóðs árlega næstu þrjú árin (2013 – 2015). Samhliða hækkuninni hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands, í samstarfi við fagfélög kvikmyndagerðarmanna, unnið að breytingum á styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs, þannig að úr verði skilvirkara og öflugra fyrirkomulag.

Kvikmyndamiðstöð Íslands hélt nýlega kynningarfund fyrir fagaðila vegna fyrirhugaðra breytinga á styrkjafyrirkomulagi Kvikmyndasjóðs, þ.e. breyttu fyrirkomulagi og nýjum áherslum í styrkveitingum.

Í kjölfar fundarins var ráðherrum og fylgdarliði þeirra boðið á kynningu á nokkrum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem eru í vinnslu : Ragnar Bragason kynnti kvikmyndina Málmhaus, Benedikt Erlingsson kynnti kvikmyndina Hross um oss, Ágúst Guðmundsson kynnti kvikmyndina Ófeigur gengur aftur, Herbert Sveinbjörnsson kynnti heimildakvikmyndina Ösku, Silja Hauksdóttir sagði frá tökum á sjónvarpsþáttunum um Ástríði og Dagur Kári sagði frá undirbúningi að kvikmyndinni Rocket Man og ferlið sem framundan er við framleiðslu myndarinnar. Auk þess ræddu Hilmar Sigurðsson og Hrafnhildur Gunnarsdóttir um stöðu kvikmyndageirans. Kynningunni lauk með stuttum ávörpum Katrínar Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Katrínar Júlíusdóttur fjármála- og efnahagsráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum